Kristniboðssambandið hefur í 30 ár haldið úti verkefninu Látum skóna ganga aftur. Hvatamaður þess var Steinar Waage, skókaupmaður sem sá verðmæti í þeim skóm sem fólk losaði sig við og voru lítið notaðir. Samið var við Sorpu um söfnun á endurvinnslustöðvum og Steinar nýtti sambönd sín í Þýskalandi þar sem hann hafði verið við nám, til að koma skónum áfram í notkun. Nú er komið að lokum þessa verkefnis og Sorpa hefur yfirtekið skógámana.
Allra fyrstu árin var Samskip samstarfsaðilinn en í rúm 25 ár hefur Krisntiboðssambandið átt í góðu samstarfi við Eimskip, sem hefur lánað okkur söfnuargáma, sótt þá og tekið til tímabundinnar geymslu án kostnaðar fyrir SÍK. Eins hefur SÍK notið góðra kjara þar. Full ástæða er til að þakka þennan mikla stuðning fyrirtækisins við verkenfið. Eimskip treystir sér ekki lengur í að halda þessu verkefni áfram með sama hætti. Mikil ásókn er í gámana og öryggissvið á hafnarbakkanum er ekki rólegt yfir því að mætt skuli með fjölda sjálfboðaliða inn á svæðið sem þarf að vakta vel af öryggisástæðum. SÍK hefði því þurft að kaupa sína eigin gáma, leigja vinnusvæði og aðstöðu til að umpakka úr 20 ft í 40 ft gáma og geyma gáma þar tímabundið. Þar sem flutningskostnaður hefur einnig hækkað og trúlegt að greiðslur að utan fyrir skóna fari lækkandi var ljóst að ekki var vit í að halda því áfram.
Á föstudag var pakkað í síðasta gáminn. 22 manns tóku þátt í verkinu, nokkrir kristniboðsvinir á áttræðisaldri, góður hópur frá sjálfobðaliðasamtökunum SEEDS sem aðstoðað hafa við þetta verkefni síðustu árin og eins nokkrir hörkuduglegir nemendur úr íslenskukennslu SÍK.
Hér með er öllum sjálfboðaliðum sem aðstoðað hafa við pökkun á liðnum árumþakkað fyrir vel unnin störf, Sorpu fyrir einstaklega góð samskipti og velvilja, Milad Export í Þýskalandi fyrir að kaupa skóna og standa alltaf við sitt og Eimskip fyrir góða þjónustu og velvilja sömuleiðis í rúm 25 ár. Innkoma fyrir skóna hefur hjálpað SÍK að fjármagna sinn hluta af þróunarsamvinnuverkefnum á sviði menntunar í Keníu á liðnum árum. Fjöldi ungmenna hefur notið bættrar aðstöðu til náms vegna verkefna sem utanríkisráðuneytið hefur styrkt um 80%.
Ef fólk á skó sem eru lítið notaðir og ekki slitnir má koma þeim á Basarinn, nytjamarkað SÍK þar sem þeir verða seldir. En annan skófatnað þarf að fara með í grenndargáma eða á endurvinnslustöðvar Sorpu.