af götu í skóla

Starf meðal götubarna í Addis Abeba höfuðborg Eþíópíu.

Götubörn í Addis Abeba

Eþíópía er eitt fátækasta land veraldar og eru íbúar um 70 milljónir. Ástæður fyrir því að fólk lendir á götunni geta verið margvíslegar. Erfiðar aðstæður, uppskerubrestur og hörð lífsbarátta hafa leitt marga af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar í von um betra líf. Því miður verður raunin oft önnur og enda margir í betli á götum úti. Þá hafa mörg börn misst foreldra sína úr alnæmi eða öðrum sjúkdómum. Einnig eru margar fjölskyldur mjög fátækar. Börnin eru á götunni vegna þess að fjölskyldur þeirra eru svo fátækar að þær hafa ekki efni á að senda þau í skóla og byggja afkomu sína meðal annars á því að betla á götum borgarinnar. Íbúar höfuðborgarinnar eru um fimm milljónir. Erfitt er að áætla nákvæmlega hve margir búa nánast á götunni, en talið er að þeir séu að minnsta kosti 60.000 og sumir tala um jafnvel tvöfalt fleiri. Áskorunin er því mikil og nauðsynlegt að afmarka verkefnið.

Afmörkun og markmið

„Af götu í skóla“ er verkefni sem hefur að markmiði að bæta líf götubarna í Addis Abeba höfuðborg Eþíópíu. Verkefnið afmarkast við að gera götubörnum mögulegt að ganga í skóla. Markmiðið er að hjálpa og styðja börnin og aðstandendur þeirra þannig að þau fái tækifæri til að ganga í skóla í a.m.k. þrjú ár og verða þannig nýtir þjóðfélagsþegnar. Takmarkið er að styðja 100 börn.

Hvernig?

Til að ná því markmiði að gera börnum kleift að ganga í skóla þarf ekki aðeins að standa straum af kostnaði við skólagöngu s.s skólagjöld, skólabúning og skólagögn, heldur líka að bæta að einhverju leyti þann tekjumissi sem hlýst af því að börnin hætta að betla. Þetta verður gert með stuðningi til aðstandenda fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Í samstarfi við innlendu samtökin Hope for Children in Ethiopia, sem eru með víðtækt starf meðal götubarna í Addis Abeba, verða þau börn valin sem styðja á og því fylgt eftir að samstarf við aðstandendur sé farsælt og árangur barnanna í skólanum góður. Íslenskur umsjónarmaður sem býr í höfuðborginni fylgir þessu samstarfi eftir og veitir upplýsingar jafnóðum til Íslands. Á Íslandi er verkefnsistjóri verkefnisins sem ber ábyrgð á að afla fjármuna og að þeir nýtist götubörnunum sem best.

Þinn stuðningur

Heildarkostnaður vegna hvers barns á mánuði er um 3500.- krónur eða 42.000 krónur á ári. Hægt er veita stuðning fyrir eitt ár eða fleiri.