Þó að kristniboðar hafi fyrst komið til Kenýu upp úr miðri 19. öld og mikið kristniboð hafi verið stundað í landinu hafa ýmsir þjóðflokkar orðið alveg útundan. Einn þeirra er Pókotþjóðflokkurinn sem býr í samnefndu héraði í norðvesturhluta landsins við landamæri Úganda. SÍK (Kristniboðssambandið) hefur ásamt Norska lútherska kristniboðssambandinu unnið að kristniboði í þar síðan 1978.

Starfið hefur verið í örum vexti og er sífellt að færast út til nýrra svæða. Fimm kristniboðsstöðvar voru byggðar upp: Chesta, Chepareria, Seker, Kongelai og Kapenguria. Chepareria var byggð af Íslendingum. Nú eru kristniboðar aðeins á einni stöðinni. Nú orðið er mest allt starfið í Pókot rekið og stjórnað af innlendum starfsmönnum kirkjunnar.

Kirkjan í Pókot rekur umfangsmikið Þróunarverkefni með aðstoð kristniboðsins. Unnið er að uppbyggingu samfélagsins og fræðslu á fjórum sviðum:

  1. Heilsugæsla. Í henni felst rekstur tveggja heilsustöðva, þar sem fólk fær aðhlynningu eða er vísað áfram til sjúkrahúsa hérðasins. Eins er farið víða um héraðið til afskekktra staða til að veita þá þjónustu og bólusetja. Þessu tengist öflugt fræðslustarf til forvarnar.
  2. Skólastarf. Kirkjan hefur með aðstoð kristniboðsins og annarra aðila byggt upp eða er að byggja upp 63 grunnskóla og sex framhaldsskóla, sem allir eru með heimavist nema einn. Fylgst er með starfi skólanna og þeim veitt aðstoð, en flestir kennaranna eru á launum ríkisins.
  3. Landbúnaður. Unnið er að endurbótum á sviði landbúnaðar. Fólki er veitt hjálp í vali á hvað best sé að rækta á hverjum stað og við að útvega sáðkorn. Jafnframt þessu er fólk hvatt til að neyta fjölbreyttrar fæðu og rækta það sem til þarf. Kvikfjárræktin fær einnig sinn hlut þar sem bændum er kennt að hugsa betur um skepnurnar, að láta bólusetja þær gegn helstu kvillum og fleira. Nú er að fara af stað sérstakt úlfaldaverkefni fyrir fólk sem býr á þurrum sléttunum í Pókot.
  4. Kvennastuðningur. Sérstakt verkefni er í gangi til að hjálpa konum til sjálfshjálpar og styðja þær til tekjuöflunar á ýmsum sviðum.

Í lok ársins 2007 voru rúmlega 20.000 manns skírðir og tilheyrðu ELCK í Pókot. Guð hefur gefið mikinn vöxt og blessað starfið ríkulega. Fólk og yfirvöld eru yfirleitt mjög jákvæð í garð kristniboðsins og kirkjunnar.