Samband íslenskra kristniboðsfélaga (SÍK), oft nefnt Kristniboðssambandið, er landssamtök kristniboðshópa, félaga og einstaklinga sem vinna að kristniboði og hjálparstarfi meðal annara þjóða. Kristniboðssambandið var stofnað árið 1929. Í upphafi studdi það kristniboða sem sendir voru til Kína. í dag er starfssvæði SÍK aðallega í Afríkulöndunum Eþíópíu og Keníu og einnig í Japan en í þessum löndum starfa íslenskir kristniboðar. SÍK styður einnig útsendingar kristilegra útvarpsþátta til Kína og er aðili að SAT7, sjónvarpsstöð sem sendir kristilega dagskrá til Mið-Austurlanda og Norður-Afríku. Megnið af þeirri dagskrá er framleidd í Líbanon og Egyptalandi, en starf SAT7 er samkirkjulegt.

Kristniboðar sem fara út á vegum SÍK fara yfirleitt í langan undirbúning, læra um siði og venjur þeirra sem starfa á á meðal, læra tungumál heimamanna og keppa eftir því að sýna heimamönnum virðingu og að vinna starf sitt allt á faglegan hátt í samræmi við almennar siðareglur.

Hér á landi er unnið markvisst starf við boðun og fræðslu. Starfsmenn SÍK taka þátt í margvíslegu starfi á kirkjulegum grunni þar sem þeir kynna starfið, hafa hugleiðingar og sinna fræðlsu. Hafa má samband í síma 533 4900 eða með tölvupósti á sik@sik.is ef óskað er eftir heimsóknum starfsmanna okkar. SÍK gefur einnig út kristilega tímaritið Bjarma og fréttablaðið Kristniboðsfréttir.