Lútherska kirkjan í Keníu hefur með aðstoð frá Íslandi og Noregi reist um 100 grunnskóla að hluta eða öllu leyti í Pókot héraði í Keníu og um 15 framhaldsskóla. Nú er brýn þörf á að reisa fleiri framhaldsskóla og bæta við þá sem fyrir eru. SÍK hefur tekið að sér að byggja fjóra þeirra eftir því sem efni og aðstæður leyfa. Tveir þeirra eru á slóðum kristniboðanna, þ.e. í Propoi, en þar bjuggu kristniboðarnir í Chepareria á árum áður og þar er stór grunnskóli fyrir – og í Kongelai en sá skóli heitir Riwo. Einn skólinn er í Chepanyal. Brýnast er að koma upp skólastofum, heimavistum og mötuneyti, þ.e. matsal og eldhúsi. ÞSSÍ styrkti þetta verkefni um 60% á á sínum tíma, hin 40% eru framlög SÍK og heimamanna. Utanríkisráðuneytið styrkti árið 2013 byggingu tveggja heimavista fyrir 64 stúlkur (alls 128) við Propoi Girls Secondary School. Ráðuneytið greiddi 70% kostnaðar, SÍK og heimamenn 30%. SÍK hefur einnig styrkt byggingu skólastofu við Embo Asis Mixed Secondary School en sá skóli hefur veirð í örum vexti.

Haustið 2016 veitti Utanríkisráðuneytið 12,2 milljónum til framhaldsskóla í Pókot, nánar tiltekið Embo Asis sem fékk tvær nýjar 64 manna heimavistir og Propoi sem fékk langþráða skrifstofubyggingu og þar með losnuðu einnig tvær kennslustofur sem höfðu verið nýttar undir skrifstofu og kennarastofur. Ráðuneytið greiddi 80% kostnaðar.

Kostnaður við byggingu kennslustofu er 2-3 milljónir króna eftir stærð.