SÍK hefur frá upphafi starfað í mjög nánum tengslum við NLM úti á kristniboðsakrinum en það er stærsta lútherska kristniboðsfélag í heimi. Það hefur auðveldað mjög allt starf íslenskra kristniboða og veitt þeim mikið öryggi. Skömmu eftir að Norðmenn ákváðu að hefja starf í Eþíópíu tókst samkomulag á milli forráðamanna SÍK og NLM um að SÍK mannaði og kostaði starf á einni kristniboðsstöð í Suður-Eþíópíu. Felix Ólafsson og Kristín Guðleifsdóttir, kona hans, fóru þangað árið 1953 fyrst Íslendinga til að hefja starf á meðal Konsóþjóðflokksins. Þau komu fljótlega á fót grunnskóla. Síðar var heilsugæslustöð opnuð. Ingunn Gísladóttir hjúkrunarfræðingur veitti henni forstöðu til margra ára.

Margir kristniboðar hafa starfað á vegum SÍK í Eþíópíu og yrði of langt mál að rekja nöfn þeirra allra og störf. Megináherslan hefur verið lögð á Konsó en þegar hægt hefur verið að senda fleiri en þörf hefur verið fyrir þar hefur SÍK lánað fólk til annarra starfssvæða NLM í Eþíópíu. Kristniboðarnir hafa unnið við læknis- og hjúkrunarstörf, fjármála- og stjórnunarstörf, neyðar- og þróunarhjálp, kennslu og boðunarstörf í Ómó Rate, Voíto, Gídole, Arba Minch, Sollamó, Robe, Negellí, Waddera og Addis Abeba.

Ávöxtur starfs SÍK í Konsó er kirkja sem í eru um 100 söfnuðir með um 40.000 manns en allur þjóðflokkurinn er talinn vera um 250.000 manns. Það er því augljóst að kirkjan hefur mikil áhrif á samfélag Konsómanna og ýmsir lífsfjandsamlegir siðir hafa verið af lagðir eða eru á undanhaldi. Starfinu hefur vaxið svo fiskur um hrygg að heimamenn geta alfarið séð um það. Kristniboðarnir hafa því farið til nýrra svæða í Voitódalnum suðvestur af Konsó. Þar hefur kristniboðsstöð með heilsugæslustöð og grunnskóla verið byggð. Eins hafa íslenskir kristniboðar starfað í Ómó Rate, allra syðst í Eþíópíu, á liðnum árum.

Lútherska kirkjan í Eþíópíu, sem heitir Mekane Yesus (staðurinn þar sem Jesús býr), var stofnuð árið 1959. Þá voru meðlimir hennar um 20.000. Nú eru þeir tæplega 6 miljónir talsins. Engin lúthersk kirkja í heiminum vex jafnhratt. Kirkjan skiptist í á annan tug sýnóda eða biskupsdæma. Íslensku kristniboðarnir hafa aðallega starfað í suður-sýnódunum.

Markmið kristniboðsstarfsins hefur alla tíð verið að stofna sjálfstæðar kirkjur sem geta staðið á eigin fótum óháðar aðstoð utan frá. Til þess að ná því markmiði hefur verið lögð áhersla á að efla leikmenn til ábyrgðar og starfa. Í því skyni hafa Biblíuskólar verið starfræktir þar sem efnt er til námskeiða fyrir almennt safnaðarfólk, starfsfólk og sóknarnefndir.