Lög Sambands íslenskra kristniboðsfélaga

1. grein Tilgangur

Tilgangur Sambands íslenskra kristniboðsfélaga, hér eftir í lögum þessum skammstafað SÍK, er að vinna að kristniboði meðal heiðingja með því að mennta kristniboða, senda þá til starfs og kosta starf þeirra, svo og að vinna að því að efla Guðs ríki og kristniboðsáhuga meðal þjóðar vorrar.

2. grein Trúargrundvöllur

SÍK byggir á grundvelli Heilagrar ritningar og játningum evangelísk-lútherskrar kirkju og krefst þess af starfsmönnum sínum að þeir kenni og starfi samkvæmt því.

3. grein Sambandsfélög

a) Hvert kristilegt félag sem játar grundvallarreglur SÍK í fyrstu og annarri grein getur fengið aðild að SÍK.

b) Aðildarfélög vinna að því að kristni og kristniboðsáhugi eflist meðal þjóðarinnar og safna fé til kristniboðsstarfsins.

c) Félagsmenn aðildarfélaga greiða árgjald til félags síns.

d) Aðildarfélög senda framlög sín í sjóð SÍK að minnsta kosti tvisvar á ári.

e) Stjórn SÍK getur óskað eftir því að fá afrit af samþykktum ársreikningum aðildarfélaganna.

f) Leggist eitthvert aðildarfélag niður eða hætti að starfa á grundvelli SÍK renna allar eignir þess, fastar og lausar, til SÍK.

4. grein Einstaklingsaðild

a) Einstaklingur, sem virðir tilgang og trúargrundvöll SÍK í fyrstu og annarri grein, getur orðið aðili að SÍK.

b) Einstaklingsaðilar leggja SÍK lið eftir mætti og vinna að eflingu kristniboðsáhuga á meðal þjóðarinnar.

c) Einstaklingasaðilar greiða árgjald, sem aðalfundur ákveður, í sjóð SÍK.

5. grein Aðalfundur

a) Aðalfundur er æðsta vald SÍK. Hann skal haldinn árlega.

b) Félagsmenn aðildarfélaga og einstaklingar sem greitt hafa árgjald liðins árs hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

c) Aðildarfélög senda stjórn SÍK lista yfir félaga með atkvæðisrétt a.m.k. hálfum mánuði fyrir aðalfund.

d) Kristniboðsvinum er heimilt að sitja aðalfund og hafa þar málfrelsi.

e) Stjórn SÍK má kveðja til aukaaðalfundar þegar hún telur nauðsynlegt.

6. grein Störf aðalfundar

a) Stjórnin leggur fram skýrslu um starf liðins árs.

b) Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga SÍK fyrir liðið ár til samþykktar og gefur yfirlit yfir fjárhaginn

c) Stjórnin kynnir fjárhagsáætlun yfirstandandi árs og starfsáætlun komandi starfsárs.

d) Fulltrúar flytja skýrslu félaga.

e) Rædd eru önnur mál sem stjórnin eða fulltrúar leggja fyrir aðalfund.

f) Aðalfundur ákveður hvort hefja eigi kristniboð á nýjum starfssvæðum eða leggja niður starf á öðrum svæðum.

g) Aðalfundur ákveður við hvaða erlend kristniboðsfélög eða kirkjur SÍK hefur samstarf.

h) Aðalfundur tekur ákvörðun um mál sem krefjast verulegra fjárútláta eða hafa í för með sér langtíma skuldbindingar fyrir SÍK.

i) Aðalfundur ákvarðar árgjald, sbr. 3gr. c) og 4. gr. c).

j) Kjörnefnd ber fram tillögu um menn í stjórn til leiðbeiningar við kosningar. Fulltrúar eru þó óbundnir af

tillögum kjörnefndar er þeir greiða atkvæði. Í stjórn má aðeins kjósa atkvæðisbæra félaga í skilningi 5. gr.

k) Stjórn SÍK skipa fimm menn sem aðalfundur kýs til tveggja ára í senn. Þeir ganga úr stjórn þrír og tveir til

skiptis og eru jafnmargir kosnir í þeirra stað hverju sinni. Síðan eru kosnir tveir varamenn til eins árs.

Fráfarandi stjórnarmenn má kjósa aftur. Verði atkvæði jöfn ræður hlutkesti.

l) Stjórnarkosning er skrifleg.

m) Aðalfundur velur tvo skoðunarmenn og tvo til vara til þess að endurskoða alla reikninga SÍK.

n) Mál sem ekki hafa verið kunngjörð aðildarfélögunum fjórum vikum fyrir aðalfund þarfnast tveggja þriðju hluta atkvæða til þess að verða samþykkt. Um önnur mál á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti. Sjá þó. 7. grein a).

7. grein Stjórn SÍK og störf hennar

a) Stjórnin fer með allar framkvæmdir SÍK milli aðalfunda og sér um að ályktunum aðalfundar sé framfylgt. Hún má ekki stofna til verulegra fjárhagsskuldbindinga nema eftir beinum ályktunum aðalfundar. Sjá einnig 6. grein h).

b) Stjórnin velur úr sínum hópi formann og varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Þó má hún velja eða ráða gjaldkera og framkvæmdastjóra utan stjórnarinnar ef þurfa þykir. Þeir hafa rétt til setu á stjórnarfundum en ekki atkvæðisrétt.

c) Stjórnin ræður kristniboða, ákveður starfssvæði þeirra og setur þeim starfsreglur.

d) Stjórnin ræður starfsmenn til kristilegrar starfsemi innanlands og setur þeim starfsreglur.

e) Stjórnin boðar til aðalfundar. Dagskrá fundarins skal auglýst með að minnsta kosti fjögurra vikna fyrirvara.

f) Að minnsta kosti mánuði fyrir aðalfund skipar stjórnin þriggja manna kjörnefnd til að undirbúa stjórnarkjör. Hún tilnefnir að minnsta kosti helmingi fleiri en eiga að ganga úr stjórn.

8. grein Lagabreytingar

a) Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi með tveim þriðju hlutum atkvæða. Þó má ekki breyta 1. grein, 2. grein og 8. grein a) og c).

b) Stjórn SÍK ber að kynna breytingartillögur að minnsta kosti fjórum vikum fyrir aðalfund.

c) Verði SÍK lagt niður skulu eignir þess renna til sams konar eða svipaðrar starfsemi.

9. grein: Heiti sambandsins

Heiti sambandsins á ensku er “Icelandic Lutheran Mission” og á norsku “Islandsk Luthersk Misjonssamband”. Á íslensku eru heitin SÍK og Kristniboðssambandið notuð jöfnum höndum.

(Með samþykktum breytingum á aðalfundi 2019)