Gísli Arnkelsson kristniboði og kennari lést á Hrafnistu í Hafnarfirði á annan páskadag, 1. apríl 91 árs að aldri.
Gísli starfaði sem kristniboði í Eþíópíu ásamt eftirlifandi eiginkonu sinni, Katrínu Þ. Guðlaugsdóttur og börnum í Konsó í suðurhluta landsins frá 1961-1972 fyrir utan eitt ár sem þau dvöldu hér, veturinn 1966-1967. Þann vetur starfaði Gísli fyrir Kristniboðssambandið og kynnti starfið með ýmsum hætti hér á landi. Starfið í Konsó í Eþíópíu hófst árið 1954 og var því ungt en engu að síður þróttmikið á þessum árum þegar grunnur var lagður að sjálfstæði kirkjunnar og framtíð starfsins.
Að starfstímanum loknum hélt fjölskyldan heim til Íslands. Þar biðu Gísla ný verkefni fyrir Kristniboðssambandið. Hann var formaður stjórnar þess frá 1973-1985 og hluta tímans sinnti hann störfum framkvæmdastjóra í hlutastarfi. Gísli átti auðvelt með að ná til fólks, var persónulegur og einlægur og með þeim hætti vakti hann áhuga margra á kristniboðsstarfinu.
Annars var Gísli kennaramenntaður og farsæll kennari. Síðustu starfsárin var hann kennari við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Margir búa að því að hafa notið kennslu hans.
Kristniboðssambandinu hafa borist kveðjur frá skrifstofu kirkjunnar í Konsó. Getachew Gelebo Guyo, forseti sýnódunnar, sendi fjölskyldu Gísla, stjórn SÍK og kristniboðsvinum innilegar samúðarkveðjur. Eins var boðað til minningar- og þakkar stundar í kirkjunni í Konsó í gær fyrir fólk sem þekkti og starfaði með Gísla á sínum tíma. Þá barst kveðja frá Kusse Kushusho sem minntist sérstaklega starfsins sem Gísli byrjaði í Nagulle og blessunarríkra samskipta hans og annarra við Gísla.
Kveðjunni frá Konsó fylgdi tilvísun í 2. Tímóteusarbréf, 4.7-8 um að hann hafi barist góðu baráttunni, fullnað skeiðið og varðveitt trúna. Honum sé geymdur sveigur réttlætisins sem Drottinn, hinn réttláti dómari, muni gefa honum á þeim degi.
Stjórn og starfsmenn SÍK blessa minningu Gísla Arnkelssonar og þakka trúfesti hans og einlægni í starfinu á akri Drottins í áratugi.