Jónas Þórir Þórisson kristniboði lést á Landspítalanum í gærkvöldi, 8. ágúst, 77 ára að aldri.
Jónas starfaði sem kristniboði í Eþíópíu ásamt eiginkonu sinni, Ingibjörgu Ingvarsdóttur, á árunum 1973-1987. Hann sinnti þar m.a. boðun, fræðslu, hjálpar- og neyðarstarfi í Konsó og fjármálastjórnun á skrifstofu kirkjunnar, Mekane Yesu. Aðstæður voru oft erfiðar vegna hungursneyðar og byltingar sem gerð var þegar keisararnum var steypt af stólki og marxískri hugmyndafræði komið á. Á sama tíma óx starfið og efldist.
Hér heima gegndi Jónas starfi skrifstofustjóra Aðalskrifstofu KFUM og KFUK og Kristniboðssambandsins í nokkur ár en var síðan ráðinn sem framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar sem hann sinnti til ársins 2013 eða í rúma tvo áratugi. Jónas var farsæll í starfi og lagði mikið af mörkum til kristniboðs og hjálparstarfs á starfsævi sinni. Jónas sat í stjórn Kristniboðssambandsins í mörg ár, þar af tæpan áratug sem formaður til ársins 2008. Hann lagði starfinu lið með ýmsu móti eftir það.
Stjórn og starfsmenn SÍK senda fjölskyldu Jónasar innilegar samúðarkveðjur í þakklæti fyrir þjónustu og störf Jónasar í þágu kristniboðsins. Drottinn blessi minningu góðs drengs.