Katsuko og Leifur Sigurðsson eru kristniboðar í Japan. Hér eru nýjar fréttir frá starfi þeirra meðal unglinga:
Unglingastarfið gengur vel og nokkur endurnýjun hefur orðið í hópnum. Við hittumst reglulega á föstudagskvöldum, borðum saman, förum í leiki og lesum í Biblíunni. Ken chan sem byrjaði að koma eftir að hafa verið í sunnudagaskólanum í mörg ár hefur verið duglegur að bjóða vinum sínum á föstudagssamverurnar okkar.
Í byrjun febrúar fengum við heimsókn af stórum hóp nemenda frá Bilbúskólanum á Fjellhaug í Ósló. Fyrir hópnum var ungur kennari Christoffer Nævdal. Hann er er sonur þeirra Herborgar Jóhannesdóttur og Jon Nævdal sem voru kristniboðar NLM í Japan í mörg ár. NLM hefur ákveðið að senda Christoffer sem kristniboða til Japans. Hann kemur ásamt fjölskyldu sinni seinna í sumar. Hópurinn gerði mikla lukku og voru japönsku ungmennin mjög ánægð með heimsóknina.
Nokkrir af eldri krökkunum standa á tímamótum. May chan og Yamagawa san eru að ljúka menntaskóla og byrja í háskóla. Þau eru bæði spennt um framtíðina og hvað hún ber í skauti sér. Við höfum átt margar góðar samræður um framtíðaráætlanir þeirra og leiðsögn Guðs. Orð Jeremía spámans hafa því oft komið upp í hugann. „Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður _ segir Drottinn _ fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.“ (Jeremía 29:11)
Sei kun, sem hefur verið mín hægri hönd í unglingastarfinu, klárar hálskólanámið í vor og hefur verið að leita að vinnu. Hann hefur mikið verið að velta fyrir sér hvort Guð sé að kalla á hann til að verða prestur. Hann hefur ráðfært sig við marga og lagt þetta fram fyrir Guð. Það hefur verið mikil blessun að hafa hann og ég vona að við getum haldið áfram að vinna saman. Biðjið fyrir þessum ungmennum, að Guð geti blessað framtíð þeirra.
Við biðjum að heilsa öllum kristniboðsvinum heima og þökkum fyrir fyrirbænir og allan stuðning.
Vinarkveðjur,
Leifur og fjölskylda