Kirkjan í Kína hefur vaxið mikið á liðnum áratugum, ekki síst vegna nærveru erlendra, kristinna sérfræðinga. En nú er svo komið að þessir sérfræðingar eru þvingaðir til að yfirgefa landið. Í viðtali við World Magazine segir Brent Fulton, stofnandi fréttamiðilsins ChinaSource, sem hefur fylgst grannt með þróun mála í Kína í rúm 30 ár, frá því að margt kristið fólk í Kína vísi í vitnisburð erlends kristins fólks sem kom til að kenna við háskóla, stofna fyrirtæki eða annað, þegar það er spurt um trúargöngu sína. Þess má geta að á árum áður studdi Kristniboðssambandið kristna sérfræðinga sem störfuðu í Kína í nokkur ár.
Þjóðernishyggja hefur aukist og andúð í garð útlendinga sömuleiðis sem þýðir að kirkjur með erlend tengsl lenda gjarnan í erfiðleikum. Samtímis er þörf fyrir sérfræðinga utan frá til að vinna með kínverskum kirkjum sem feta nýjar slóðir, með vaxandi áherslu á fjölmiðlun, sálgæslu og menntun.
Fulton varar við svartsýni þegar kemur að framtíð kristsni í Kína. Vissulega séu takmarkanir settar á kirkjur og síðastliðin tvö ár hafa yfirvöld hert tökin enn frekar. Það er þó ekki helsta áhyggjuefni kristins fólks þar í landi. Hugsanlega breyti það kirkjumynstrinu og að horfið verði frá risakirkjum í stórborgunum. Það þarf ekki að vera slæmt. Með fleiri og smærri hópa má ná lengra og hafa meiri áhrif. Vera má að framundan sé margföldun kirkjunnar – og það í boði Kommúnistaflokksins.
(Heimild og myndefni: Grein Steinars Opheim á https://tentmaking.today/professionals-instrumental-in-chinese-church-growth/)