Í liðnum mánuði skrifuðu fulltrúar SÍK og Utanríkisráðuneytisins, þróunarsamvinnusviðs, undir samning um verkefnið „Kamununo stúlknaframhaldsskólinn“. Er það nýr heimavistarskóli fyrir stúlkur í fjalllendi Kasei í Norður-Pókot. Til grundvallar lá umsókn SÍK um framlag til verkefnisins, sem ráðuneytið styrkir með 10.388.000 krónum, SÍK greiðir rúma milljón og heimamenn leggja fram rúmar 3 milljónir í formi vinnu, efnisöflunar og lóðar undir skólann.
Skólinn tók til starfa í byrjun þessa árs, með samþykki yfirvalda, án þess þó að nokkur aðstæða væri fyrir hendi. Kennt er í helmingi kirkjkubyggingar í nágrenninu – og sofið í hinum helmingnum. Nú verður á næstu vikum ráðist í undirbúning og framkvæmdir en til stendur að byggja 64 manna heimavist, salernisaðstöðu fyrir nemendur og aðskilda fyrir starfmenn skólans, tvær kennslustofur og skrifstofubyggingu fyrir skólastjórnendur og kennara.
Aðgengi stúlkna á svæðinu að framhaldsskólanámi hefur verið takmarkaður en með þessum fyrsta áfanga er tryggð góð aðstaða fyrir kennara semog nemendur, sem er forsenda góðs gengis í námi. Í umsögn matsnefndar kom fram að verkefnið fellur mjög vel að markmiðum ráðuneytisins og stefnu Íslendinga í þróunarsamvinnu.