Norska kristniboðssambandið (NLM) rekur fjölskyldubiblíuskóla í Nairóbí í Keníu. Fyrsta námskeiðið hófst í byrjun janúar og lýkur í lok þessa mánaðar. Skólinn kallast „TeFT Familie“ og býður upp á þriggja mánaða námskeið tvisvar á ári.
Börnin ganga í norska grunnskólann og einnig er í boði leikskóli fyrir þau yngstu. Fjölskyldurnar fá tvær máltíðið á dag virka daga en sjá að öðru leyti um sig sjálfar. Umsóknarfrestur fyrir haustnámskeiðið 2017 og vornámskeiðið 2018 rennur út í lok mánaðarins. Íslendingar eru velkomnir svo nú er að hrökkva eða stökkva fyrir þá sem hafa velt þessu fyrir sér.
Mikil ánægja er hjá þeim 7 fjölskyldum og 23 börnum þeirra sem komu til Nairóbí í byrjun janúar. Öllum líður vel og foreldrarnir eru sérstaklega þakklátir fyrir að geta átt þennan góða tíma saman.
Lesa má viðtal við Rune Mjölhus, sem ásamt eiginkonu sinni stjórnar skólanum, á heimasíðu NLM (http://www.nlm.no/utsyn/nyheter-fra-utsyn/maalet-er-familier-som-forandres). Þar kemur m.a. fram að kennt sé fjóra daga vikunnar en einn dag í viku fari nemendur í heimsóknir og hjálpi til í fátækrahverfum borgarinnar. Mikil áhersla er á að fjölskyldan eigi mikinn tíma saman þar sem hægt er að fara í ýmsar skemmtilegar ferðir í frítímanum. Allir búa á öruggri lóð kristniboðsins í Nairóbí.