Innan Kristniboðssambandsins hefur lengi verið talað um að efla starf meðal ungmenna með það fyrir augum að efla áhuga og vitund um kristniboð í þeirri von að fleiri úr þeim hópi kynnist starfinu og kjósi að tengjast því. Kristniboðssambandið hefur staðið fyrir tíu kynnisferðum fyrir ungt fólk á kristniboðsakurinn síðustu tvo áratugi og hefur það verið mjög jákvætt og gott, en vilji er til að gera betur. Í þessu skyni ákvað NLM Ung, æskulýðshreyfing systursamtaka SÍK í Noregi, að styðja við bakið á starfinu hér á landi með styrk svo ráða megi starfsmann í hlutastarf. Það varð til þess að ákveðið var að ráða Ólaf Jón Magnússon sem gegnir stöðu skólaprests, í hálft starf hjá SÍK. Samningurinn gildir í fjögur ár. NLM Ung stendur fyrir víðtæku starfi meðal barna, unglinga og ungmenna í Noregi og heldur árlega fjölmenn ungmennamót, UL, sem hópur Íslendinga hefur sótt undanfarin ár. Þar er því einnig að finna dýrmæta reynslu, fræðsluefni og möguleika á ýmsum öðrum stuðningi og hvatningu.
Ragnar Gunnarsson