Kristniboðssambandið (SÍK) hefur á undanförnum árum notið þess ríkulega að ýmsir hafa arfleitt SÍK, að hluta eða að öllu leyti, að eignum sínum. Oftast er um að ræða fólk sem á ekki lögerfingja. Ljóst er að án þessarra gjafa hefði SÍK hvorki getað staðið við allar skuldbindingar sínar né fært út kvíarnar.
Arfur er fyrir sumum feimnismál og erfitt umfjöllunar. Arfur hefur þó orðið öðrum til blessunar í mörg ár eftir andlát viðkomandi. Þess vegna er engin ástæða til annars en að benda á þessa leið. Til að tryggja að eignir eða hluti þeirra endi á ákveðnum stað þarf að liggja fyrir erfðaskrá sem kveður á um skiptingu eigna. Erfðaskrá gengur ekki í gildi fyrr en með andláti viðkomandi og þeim má breyta. Ýmis dæmi eru um að fólk breyti erfðaskrám enda hefur það fullan ráðstöfunarrétt yfir eignum sínum meðan það lifir.
Fólk sem á lögerfingja getur ráðstafað um þriðjungi eigna sinna til annarra. Góðgerðasamtök þurfa ekki, frá og með síðustu áramótum, að greiða erfðafjárskatt af arfi.
Erfðaskrár þurfa að vera rétt gerðar og undirritaðar af vottum um að viðkomandi hafi gert skrána af sjálfsdáðum og án nokkurs þrýstings. Ef einhver er að velta þessum málum fyrir sér má hafa samband við skrifstofu SÍK og leita eftir ráðgjöf og aðstoð ef ætlunin er að SÍK njóti hluta arfsins. Farið verður með slík mál sem trúnaðarmál og skal það undirstrikað að þó svo einhver ákveði ráðstöfun fjár síns og eigna eftir sinn dag, hefur viðkomandi fullt frelsi og þarf engan að spyrja, vilji hann eða hún breyta fyrri ákvörðun sinni.
RG