Frjáls hugsun og trú

posted in: Fréttir | 0

 Sat72 Kristniboðssambandið styður kristilegu sjónvarpsstöðina Sat-7 með árlegu fjárframlagi.

„Sé sannleikurinn fyrsta fórnarlamb stríðsátaka þá má það undrum sæta að enn sé starfandi í Mið-Austurlöndum sjónvarpsstöð sem boðar fagnaðarerindið.“ Svo mælti Dr. Terence Ascott stofnandi og formaður stjórnar Sat-7, í tilefni dags frjálsrar blaðamennsku, 3. maí sl. og bætti svo við:

„Sat-7 þakkar fyrir að mega vera á meðal þeirra sem boða fagnaðarerindið og hvetja með því til sátta manna á meðal. Með dagskrá sinni tekur stöðin upp hanskann fyrir þjóðernistengda- og trúarlega minnihlutahópa á svæðinu. Konur og börn eiga einnig oft undir högg að sækja, Sat-7 styður og hvetur til jafnréttis.“

Sú einarða afstaða Sat-7 að vera rödd þeirra sem annars aldrei heyrist er sérstaklega mikilvæg þar sem víðtækar hömlur hafa verið settar á starfsemi fjölmiðla. Samkvæmt alþjóðlegum samtökum blaðamanna eru það löndin í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum sem koma verst út í könnunum um frelsi blaðamanna til fréttaflutnings. Aðeins í Túnis hafa einhverjar umbætur þessu lútandi orðið. Sýrland er nú á dögum hættulegasta land veraldar fyrir fjölmiðlamenn. Síðastliðin misseri hafa margir fréttamenn verið myrtir þar fyrir það eitt að vilja flytja fréttir. Með sendingum í gegnum gervihnött kemst Sat-7 framhjá hindrunum og ritskoðun yfirvalda í hverju landi. Einnig gengur betur að koma ólíkum sjónarmiðum að þegar fjölbreytt málefni eru rædd.

Fólk af ólíkum uppruna er líklegra til að hlusta og horfa þegar ólíkar skoðanir koma fram. Margir þættir á Sat-7 hvetja áhorfendur til að hringja og tjá sig. Íranskir og sádí-arabískir áhorfendur hafa sérstaklega lýst ánægju sinni með þá virðingu og hófstilltu nálgun sem skoðunum þeirra er sýnd.

Yfirmaður upptökuvers Sat-7 í Egyptalandi, Farid Samir, segir: „Við skírskotum ekki bara til hinna kristnu heldur viljum við með sprengikraft fagnaðarerindisins ná til nýrra, fá fólk til að hugsa og skoða sjálft sig, trúna og samband sitt við Guð.

Von og vonbrigði

Þrá fólks eftir meira frjálsræði var á meðal þess sem hratt af stað hinu svokallaða arabíska vori. En þrátt fyrir ýmsar breytingar í kjölfar þess, sumar góðar og aðrar slæmar, þá er staðan lítið breytt.

Yfirmaður arabískrar framleiðslu Sat-7 George Makeen lét hafa eftir sér: „Fólk vill aukið frelsi en tekst ekki að koma því á.“

George stýrir m.a. framleiðslu þáttarins Bridges (e. Brýr milli menningarheima) þar sem rædd eru málefni líðandi stundar. Í þætti nýverið ræddu gestir sögu lýðræðis og merkingu þess fyrir Mið-Austurlönd; einnig voru ræddar hugsanlegar ástæður þess að oft virðast rótgróin lýðræðisríki á Vesturlöndum sýna stjórnvöldum þekktra einræðisríkja almennan og víðtækan stuðning.

Í öðrum þætti sem ber heitið Needle and Thread (e. Nál og þráður) var nýverið fjallað um fordóma sem fólk frá Súdan verður fyrir í Egyptalandi, en þangað flytjast margir í leit að vinnu. Í þættinum var tekin fyrir sorgleg saga ungrar konu sem lét engan ósnortinn. Þátturinn vakti athygli um allt Egyptaland og hófust löngu tímabærar umræður um kynþáttahatur og vandmál því tengdu í landinu.

Kristin trú gegnsýrir alla dagskrá og framleiðslu Sat-7. Á stórum svæðum hafa menn engin önnur tækifæri til að heyra um Jesú en í gegnum fjölbreytta dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar. Stöðin veitir kirkjum í hverju landi fyrir sig tækifæri til að miðla fagnaðarerindinu til þjóðar sinnar og sýna í orði og verki kærleikann sem Jesús kallar okkur til.

Sat71 Sat73

(Heimild: Sat7.org)