Í gegnum tíðina hafa mörg börn fylgt foreldrum sínum út á kristniboðsakurinn og dvalið þar til lengri eða skemmri tíma. Á árum áður dvöldu mörg þeirra í heimavistarskólum fjarri foreldrum sínum. Sú reynsla hafði mótandi áhrif á þau og því miður verið mörgum þungbær, bæði börnunum og foreldrum þeirra. Eins hefur heimkoman reynst mörgum erfið og aðlögun að lífinu „heima“.
Í fyrra kom fram hópur fullorðinna kristniboðabarna í Noregi sem tjáði sig um skaða sem þau höfðu orðið fyrir á þessum viðkvæmu mótunar- og uppvaxtarárum sem kristniboðabörn erlendis. Norska kristniboðssambandið (NLM) átti í kjölfarið gagnleg og upplýsandi samtöl við fulltrúa þeirra um þá reynslu. Í framhaldi af því ákvað NLM að bjóða fullorðnum fyrrverandi kristniboðabörnum upp á samtöl við fagaðila sem hafa sérþekkingu á vinnu eftir áföll af þessum toga.
Stjórn SÍK hefur fylgst með þessum málum og sl. sumar boðaði stjórnin til umræðufundar til að ákveða hvernig brygðist yrði við sams konar málum hérlendis. Í framhaldi af honum hefur SÍK boðið uppkomnum kristniboðabörnum tvenns konar úrræði til að vinna úr þessum málum. Boðið hefur verið upp á viðtöl hjá óháðum fagaðilum, fólki að kostnaðarlausu, annars vegar sálfræðingi og hins vegar fjölskylduráðgjafa. Þetta hefur verið kynnt hlutaðeigandi og er enn opið fyrir alla sem hafa verið börn kristniboða á vegum SÍK.
Þau kristniboðabörn sem hafa verið erlendis á vegum SÍK og hafa áhuga á að ræða sín mál við fagaðila geta haft samband við Kristínu Bragadóttur sálfræðing hjá Hugarsetri. Hún hefur menntun og reynslu á sviði áfallastreitu. Bókunarsími fyrir viðtöl er 557 1002 og taka skal fram að þetta sé vegna Kristniboðssambandsins. SÍK fær engar upplýsingar um hvaða einstaklinga er um að ræða. Kristín býður einnig upp á netfundi með fólki t.d. ef það er erlendis eða á landsbyggðinni eða fólk bara kýs það frekar. Eins má leita til Hafliða Kristinssonar fjölskylduráðgjafa. Hann hefur aðstoðað fólk sem hefur þurft að glíma við fortíð sína sem hefur mótast af því að faðir eða foreldrar voru prestar eða í forstöðu kristilegs starfs. Hann hefur góðar forsendur ef fólk vill ræða þessi mál á forsendum trúar, hvort sem það telur sig eiga trú í dag eða ekki. Hafliði er með netfangið hkristin@simnet.is. Verið er að vinna í einu úrræði enn sem vonandi verður hægt að kynna á næstu vikum en þar er um að ræða erlenda sérfræðinga.
Það er ósk Kristniboðssambandsins að með þessu móti sé hægt að styðja fyrrum kristniboðabörn til bata og að vinna úr áföllum sem þau hafa orðið fyrir.