Fjölskylda Bjarna E. Guðleifssonar hefur fært Kristniboðssambandinu veglega minningargjöf til minningar um hann, en Bjarni, sem fæddist árið 1942, lést í haust. Bjarni var náttúrfærðingur, skrifaði doktorsritgerð sína á sviði plöntulífeðlisfræði og vann við rannsóknir hjá Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins á Norðurlandi alla sína starfsævi. Hann gegndi einnig stöðu prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands. Fyrir Bjarna var aldrei vandamál að vera vísindamaður á sviði raungreina og samtímis að trúa á Guð sem skapara heimsins. Kemur það m.a. skýrt fram í bók hans Öreindirnar, alheimurinn, lífið – og Guð sem út kom fyrir þremur árum. Bjarni var skemmtilegur fræðari og penni og liggur eftir hann fjöldi greina og bækur sem og tímarit sem hann ritstýrði. Það var vissulega auðgandi að eiga stundir með Bjarna og ræða við hann um hvort sem var, trúmál eða hugðarefni hans á sviði náttúrufræði og útivistar.
Bjarni kynntist kristniboðsstarfinu sem unglingur og lagði því lið með ýmsu móti á ævigöngunni, ekki síst með þátttök sinni í kristniboðssamverum á Akureyri, en þangað flutti hann að loknu námi. Bjarni hljóp hálfmaraþon og safnaði áheitum til kristniboðsins fyrir fáeinum árum síðan. Ekki dró það úr áhuga Bjarna á kristniboðsstarfinu að systir hans, Kristín, gerðist á sínum tíma kristniboði og ruddi brautina í Konsó ásamt eiginmanni sínum Felix Ólafssyni og að Leifur Sigurðsson systursonur hans varð kristniboði, fyrst í Pókothéraði í Keníu og á seinni árum í Japan.
Við þökkum þjónustu Bjarna Eyjólfs Guðleifssonar við kristniboðið og biðjum Drottin að blessa minningu hans.