Posted on

Kristniboðsdagurinn á sunnudag: Útvarpsguðsþjónusta, kaffisala og samkomur

Kristniboðsdagurinn er nú á sunnudag, 12. nóvember. Rúm 80 ár eru síðan farið var að helga einn sunnudag kirkjuársins kristniboðinu og starfi Kristniboðssambandsins, þá í Kína en síðar meir í Eþíópíu og Keníu og síðan í Japan og víðar.

Biskup hefur alla tíð hvatt presta til að minnast kristniboðsins á þessum degi í guðsþjónustum dagsins og taka samskot til starfsins. Starfsmenn og sjálfboðaliðar á vegum Kristniboðssambandsins taka víða þátt í helgihaldi og kynna starfið.

Útvarpsguðsþjónusta dagsins verður frá Áskirkju og þar mun Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins prédika og sóknarpresturinn, Sigurður Jónsson þjóna fyrir altari. Frá klukkan 14-17 verður kaffisala Kristniboðsfélags karla í Kristniboðssalnum og klukkan 17 á sama stað verður samkoma. Þar mun Skúli Svavarsson flytja hugvekju, starfið verður kynnt í máli og myndum og kvennakórinn Ljósbrot syngur þrjú lög. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Á Akureyri verður samkoma í tilefni dagsins í félagsheimili KFUM og KFUK, Sunnuhlíð 12 og hefst kl. 17. Þar mun Hermann Bjarnason gjaldkeri stjórnar flytja hugvekju og kynna starfið. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Kristniboðsalmanakið fyrir árið 2018 er nýkomið út og verður víða dreift eftir guðsþjónustur og eins verður það fáanlegt í kirkjum landsins og á nytjamarkaði Kristniboðssambandsins, Basarnum,  í Austurveri, Háaleitisbraut 58-60. Almanakið verður einnig sent út til allra áskrifenda Kristniboðsfrétta í lok mánaðarins.

Posted on

Samkoma miðvikudag

Samkoma verður miðvikudaginn, 9. nóvember kl. 20, í Kristniboðssalnu, Háaleitisbraut 58-60.

Karlakór KFUM syngur.

Ræðumaður er Kristján Búason. Yfirskriftin er úr fjallræðunni: Nýtt lögmál (matt. 5.17-20).

Kaffi og meðlæti eftir samkomu.

Allir velkomnir.

Posted on

Utanríkisráðuneytið styrkir byggingu 8 kennslustofa í Keníu

Í dag var undirritaður samningur milli Utanríkisráðuneytisins og Kristniboðssambandsins (SÍK) um þátttöku þess fyrrnefnda í verkefninu „Menntun á jaðarsvæðum“. Ætlunin er að byggja tvær kennslustofur við þrjá grunnskóla í Pókotsýslu og tvær við einn skóla í Turkanasýslu, alls átta talsins. Skólarnir eru úr alfaraleið og eiga þessar nýju skólastofur að bæta úr brýnni þörf og þannig bæta skólastarfið og þátttöku nemenda með minna brottfalli en verið hefur. Framlag ráðuneytisins er 8 milljónir en framlag SÍK og heimamanna rúmar 2 milljónir.

Myndin er af Ragnari Gunnarssyni framkvæmdastjóra Kristniboðssambandsins og Ágústi Má Ágústssyni, sérfræðingi á þróunarsamvinnuskrifstofu Utanríkisráðuneytisins með undirritað skjalið fyrir framan vegg með Heimsmarkmiðum SÞ. Fjórða markmiðið er einmitt „Menntun fyrir alla“.

Posted on

Sorg í Egyptalandi

Enn á ný syrgja Egyptar í kjölfar árása gegn kristnu fólki. Nýverið var prestur rétttrúnaðarkirkjunnar myrtur með hrottalegum hætti; SAT-7 greindi frá þessu og haldin var bænastund fyrir hina syrgjandi aðstandendur.

Presturinn hét Samaan Shehata og var stunginn til bana 12. október sl. Frá því í desember í fyrra hafa meira en 100 kristnir menn verið myrtir í sprengjuárásum á kirkjur, hnífa-  og skotárásum í Egyptalandi.

Samaan Shehata var frá Beni Suef, lítilli borg í Mið-Egyptalandi. Hann hafði vitjað fjölskyldu í Kaíró og á leiðinni af heimili fjölskyldunnar til nærliggjandi kirkju var ráðist á hann og hann myrtur á miskunnarlausan hátt. Prestar rétttrúnaðarkirkjunnar ganga með áberandi kross og ljóst að það virðist nóg til að hatrið og heiftin, sem býr í mörgum, brjótist út.

MAÐUR KÆRLEIKANS

Í þætti SAT-7 sem ber heitið Keep on Singing (e. Látið sönginn hljóma) bað lofgjörðarsveitin fjölskyldunni friðar og huggunar í söng og bæn til Drottins. Kórstjórinn þekkti Samaan persónulega og lýsti honum sem auðmjúkum þjóni Guðs sem endurspeglaði í öllu sínu lífi þann kærleika sem Jesús hefur kennt okkur.

Í þættinum voru lesin orðin í Róm. 14:8: Ef vér lifum, lifum vér Drottni, og ef vér deyjum, deyjum vér Drottni. Þættinum lauk með bæn þar sem beðið var fyrir aðstandendum og því að þessum ofsóknum mætti linna.

KALLAÐ EFTIR ÁBYRGÐ

Terence Ascott, stofnandi og stjórnarformaður SAT-7, lét hafa eftir sér: Réttlát reiði eykst á meðal kristinna Egypta. Hvenær munu þeir njóta sömu réttinda og aðrir þegnar þessa fallega lands?

SAT-7 stendur með koptísku kirkjunni í Egyptalandi og biður þess að Guð varðveiti alla kristna menn á þessum erfiðu tímum.