Posted on

Starfið í Búlgaríu

Nora og Gísli.

Hjónin Nora og Gísli Jónsson starfa í Búlgaríu. Þau eru kristnir ráðgjafar og kennarar. Kristniboðssambandið styður starf þeirra. Hér koma molar úr fréttabréfi frá þeim.

Við lofum Guð fyrir trúfesti hans. Síðasta ár höfum við verið önnum kafin við ráðgjöf, munaðarleysingjahælið, Rómabúðirnar og lífið almennt.

Það sem er að gerast eftir að Rómabúðirnar voru jafnaðar við jörðu er að Stojanka og presturinn í kirkjunni okkar eru að leita að landi til kaupa þar sem hugmyndin er að aðstoða

Leikið við börnin eftir að Rómabúðirnar voru jafnaðar við jörðu.

þessar fjölskyldur við að koma undir sig fótunum að nýju. Erlend samtök hafa gefið fjármuni sem duga til að kaupa land. Hugmyndinn er að skapa samfélag sem borgar skatta og skyldur (sem þeir almennt gera ekki) og taka samfélagslega ábyrgð. Vonin er að foreldrar sjái að menntun barnanna geti breytt lífi þeirra til góðs. Sem dæmi má nefna að ungar stúlkur 13- 14 ára eru giftar ungum mönnum og þar af leiðandi lifa sama lífi og foreldrar þeirra.

Við getum ekki undirstrikað nógu mikið mátt bænarinnar og höfum við fundið fyrir  krafti hennar í neyð, baráttu og barningi í gegnum árin hér í Búlgaríu. Endilega haldið áfram að biðja fyrir okkur og starfinu, einnig fyrir auknum fjárhagslegum stuðningi svo við getum smátt og smátt einbeitt okkur og kennt og þjálfað meir og einbeint sjónum okkar að Róma börnum og þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Í sálmi 127 segir: „Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis“.

Posted on

Unglingastarf í kikjunni í Japan

Katsuko og Leifur Sigurðsson eru kristniboðar í Japan. Hér eru nýjar fréttir frá starfi þeirra meðal unglinga:

Unglingastarfið gengur vel og nokkur endurnýjun hefur orðið í hópnum. Við hittumst reglulega á föstudagskvöldum, borðum saman, förum í leiki og lesum í Biblíunni. Ken chan sem byrjaði að koma eftir að hafa verið í sunnudagaskólanum í mörg ár hefur verið duglegur að bjóða vinum sínum á föstudagssamverurnar okkar.

Í byrjun febrúar fengum við heimsókn af stórum hóp nemenda frá Bilbúskólanum á Fjellhaug í Ósló. Fyrir hópnum var ungur kennari Christoffer Nævdal. Hann er er sonur þeirra Herborgar Jóhannesdóttur og Jon Nævdal sem voru kristniboðar NLM í Japan í mörg ár. NLM hefur ákveðið að senda Christoffer sem kristniboða til Japans. Hann kemur ásamt fjölskyldu sinni seinna í sumar. Hópurinn gerði mikla lukku og voru japönsku ungmennin mjög ánægð með heimsóknina.

Nokkrir af eldri krökkunum standa á tímamótum. May chan og Yamagawa san eru að ljúka menntaskóla og byrja í háskóla. Þau eru bæði spennt um framtíðina og hvað hún ber í skauti sér. Við höfum átt margar góðar samræður um framtíðaráætlanir þeirra og leiðsögn Guðs. Orð Jeremía spámans hafa því oft komið upp í hugann. „Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður _ segir Drottinn _ fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.“ (Jeremía 29:11)

Sei kun, sem hefur verið mín hægri hönd í unglingastarfinu, klárar hálskólanámið í vor og hefur verið að leita að vinnu. Hann hefur mikið verið að velta fyrir sér hvort Guð sé að kalla á hann til að verða prestur. Hann hefur ráðfært sig við marga og lagt þetta fram fyrir Guð. Það hefur verið mikil blessun að hafa hann og ég vona að við getum haldið áfram að vinna saman. Biðjið fyrir þessum ungmennum, að Guð geti blessað framtíð þeirra.

 

Við biðjum að heilsa öllum kristniboðsvinum heima og þökkum fyrir fyrirbænir og allan stuðning.

Vinarkveðjur,

Leifur og fjölskylda

Posted on

Ragnar í Keníu

Hér koma nokkrar myndir sem Ragnar Gunnarsson setti á fésbókarsíðu SÍK. Ragnar er nú staddur í Pókot í Keníu og vinnur þar fyrir Kristniboðssamandið. Hann starfaði í mörg ár sem kristniboði í Pókot.

Nokkrar myndir – sólarlagið í gær, heimsókn til Penninu og rigningin sem tafði okkur þar. Þrjár myndir frá Propoi, ásamt Jamas Murray, Thomasi Lokorri og tveim skólanefndarmönnum, annar er formaðurinn. Sjá má hvernig tryggja þarf að jarðvegurinn skolist ekki í burtu í hallanum. Loks er mynd frá Udom heimili fyrir munaðarlausbörn í Chepareria. Það er í góðum gangi eftir hremmingar sem komu upp fyrir 3 árum er Bandaríkjamenn sem komu þessu í gang urðu eitthvað hikandi.

 

 

 

      

Posted on

Prestar og prédikarar á námskeiði

Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins er þessa dagana staddur í Pókot í Keníu. Hann kennir á námskeiði fyrir presta og prédikara kirkjunnar. Hann fylgir einnig eftir ýmsu öðru sem Kristniboðssambandið vinnur að í Pókot s.s. byggingum kirkna, skóla og heimavista. Hægt hefur verið að fylgjast með störfum hans á fésbókarsíðu SÍK.

Hér er færsla frá 1. mars: Nemendur námskeiðsins, prestar og prédikarar ákváðu að klæða sig upp fyrir myndatöku, sem fram fór rétt fyrir tímann minn svo ég fékk að vera með. Blessunarríkir dagar, mjög svo tímabært námskeið til andlegrar endurnýjunar, hressingar og hvíldar. Höfum átt góð samtöl innan og utan kennslustofunnar. Megi Drottinn blessa þjóna sína og þjónustu þeirra í ríkum mæli á komandi mánuðum og árum.