Kristniboðssambandið styrkir kirkjuna í Keníu til að vinna að útbreiðslu fagnaðarerindisins til nýrra svæða sem eru utan þess svæði sem unnið hefur verið á undanfarin 30 ár. Má þar nefna Marakwet (norðaustur af Pókothéraði), Baringo (austur af héraðinu) Turkana (norður af Pókot) og Kara-Pókot eða nyrsti hluti Pókothéraðs. Megináhersla er á síðasta svæðið sem er norður af Kongelai og meðfram landamærum Úganda. Starfið og útbreiðsluverkefnið nær inn fyrir landamæri Úganda en á því svæði búa Pókot menn einnig.
Framlag SÍK fer í launa- og ferðakostnað presta og prédikara sem vinna að verkefninu, í tækjabúnað, bókhald og stjórnun. Reynt er að styrkja efniskaup (timbur og bárujárn) fyrir einfaldar kirkjubyggingar á nýjum svæðum en kostnaðurinn er um 75.000 krónur. Heimamenn leggja fram vinnu, trjádrumba og greinar sem halda uppi veggjum og leir þeim sem notaður er í þá. Heildarframlag á ári er rúmar 2.5 milljónir.