Þó að kristniboðar hafi fyrst komið til Kenýu upp úr miðri 19. öld og mikið kristniboð hafi verið stundað í landinu urðu ýmsir þjóðflokkar alveg útundan. Einn þeirra er Pókotþjóðflokkurinn sem býr í samnefndu héraði í norðvesturhluta landsins við landamæri Úganda. SÍK (Kristniboðssambandið) hefur ásamt Norska lútherska kristniboðssambandinu unnið að kristniboði þar síðan 1978.

Starfið hefur verið í örum vexti og er sífellt að færast út til nýrra svæða. Fimm kristniboðsstöðvar voru byggðar upp: Chesta, Chepareria, Seker, Kongelai og Kapenguria. Chepareria var byggð af Íslendingum. Nú eru engir fastir kristniboðar þar að störfum.Starfið í Pókot rekið og stjórnað af innlendum starfsmönnum kirkjunnar en kristniboðar heimsækja svæðið til að veita ráðgjöf, kenna á námskeiðum og vera til hvatningar.

Kirkjan í Pókot hefur á liðnum áruim byggt upp skóla og heimavistir til að auðvelda og bæta aðstöðu til náms. SÍK hefur styrkt slík verkefni og notið styrkja frá utanríkisráðuneytinu til þess en rá’ðuneytið greiðir 80% af kostnaði þeirra verkefna sem samþykkt eru.

SÍK styrkir útbreiðsluverkefni kirkjunnar þar sem prestar og prédikarar leita út til nýrra svæða og byggja upp starf og söfnuði m.a. meðal nágranna þjóðflokka og meðal Pókotmanna sem búa handan landamæranna í Úganda.

Fólk og yfirvöld eru yfirleitt mjög jákvæð í garð kristniboðsins og kirkjunnar.