Á aðalfundi Kristniboðssambandsins árið 2010 var ákveðið að hefja kristniboðsstarf í Japan. Japanska þjóðin er önnur stærsta þjóðin sem hefur hvað fæsta fylgjendur kristinnar trúar í heiminum (1,2 % kristnir, þar af 0,3 % mótmælendur). Þjóðin telur tæplega 124 miljónir manna. Trúfrelsi er tryggt í stjórnarskrá landsins. Á yfirborðinu virðist Japan mjög vestrænt og veraldlegt samfélag þar sem yfir 80% landsmanna eru ekki skráðir í ákveðið trúfélag. Flestir Japanir aðhyllast þó einhverskonar forfeðradýrkun eða shintoisma.
Kristniboð í Japan er mjög frábrugðið kristniboði í Afríku. Japan er mjög þróað land með þriðja stærsta hagkerfi í heimi á eftir Bandaríkjunum og Kína. Flestir íbúar landsins búa í borgum eða 92%. Kristniboðar frá Noregi, Finnlandi og Íslandi vinna náið með Lútersku kirkjunni (WJELC). Kristniboðar frá ýmsum löndum hafa í gegnum árin unnið ötullega að kristniboði í Japan en árangurinn hefur ekki verið mikill. Í dag starfa um 1200 kristniboðar frá ýmsum löndum í Japan.
Katsuko og Leifur Sigurðsson eru fyrstu íslensku kristniboðar Kristniboðssambandsins í Japan. Þau settust að á Rokkó-eyju, úthverfi Kobe. Leifur starfar þar sem prestur safnaðarins með áherslu á að ná til nýrra með fagnaðarerindið.
Kristniboðssambandið hefur alla tíð starfað í náinni samvinnu við Norska kristniboðssambandið (NLM) og gerir það einnig í Japan. NLM hóf starf í Japan árið 1949 eftir að lokað var fyrir kristniboð í Kína. Árið 1962 var Lúterska kirkjan stofnuð (West Japan Evangelical Luthern Church, WJELC).