Mekane Yesus kirkjan í Eþíópíu er afar fjölmenn og nær yfir mjög stórt svæði. Kirkjan hefur vaxið ört á liðnum áratugum og teljast tæpar 12 milljónir til hennar. Skiptist hún í nokkur starfssvæði eða sýnódur sem samsvara biskupsdæmum. SÍK styrkir afmörkuð verkefni, einkum á starfssvæði kristniboðanna í Central Rift Valley Synod sem er með skrifstofur í Konsó. Meðal verkefna eru boðunar- og útbreiðslustarf í Voítódalnum, menntun prestsefna, lestrarkennsluverkefni (fullorðinsfræðslu) í Ómó Rate, stuðningur við kristniboða kirkjunnar í Vestur-Afríku og fleira.