Á heimavelli mynda hin ýmsu kristniboðsfélög, hópar og einstaklingar net velunnara og bakhjarl starfsins. Kristniboðsfélögin halda fundi með reglulegu millibili, en þó ekki jafn oft öll þeirra. Sum hittast á mánaðarfesti, önnur á hálfsmánaðarfresti og enn önnur tíðar eða sjaldnar. Beðið er fyrir starfinu, fjármunum safnað, staðið fyrir fjáöflun og kynningu o.s.frv. Starfsmenn SÍK heimsækja kristniboðsfélög, söfnuði, skóla, barnastarf kirkjunnar, KFUM og KFUK og önnur samtök sem óska eftir heimsókn frá Kristniboðssambandinu.
Vikulegar samkomur eru haldnar á miðvikudagskvöldum kl. 20 í Kristniboðssalnum 3. hæð, Háaleitisbraut 58-60. Íslenskukennsla fyrir útlendinga er einnig í boði yfir vetrartímann.
Kristniboðssambandið gefur út Kristniboðsfréttir tvisvar á ári. Undanfarið ár hefur verið sent netbréf, Kristniboðspósturinn, á mánaðarfresti. Í 40 ár hefur SÍK gefið út Kristniboðsalmanakið með kynningu á starfinu í myndum og texta. Undanfarin ár er almanakið gefið út í samstarfi við Lífsmótun ehf., útgefanda Lykilorða hér á landi.
Salt ehf er útgáfufélag í eigu SÍK sem gefur út bækur og fræðsluefni. Fjárhagur þess er aðgreindur frá öðru starfi SÍK þar sem bókaútgáfa og sala er virðisaukaskattskyld. Einfaldast er að kaupa bækur Salts ehf á saltforlag.is, skrifstofu SÍK og Basarnum. Margar fást einnig í Kirkjuhúsinu og Jötunni og þær nýjustu hjá Bókabúð Forlagsins og Pennanum/Eymundsson. Salt ehf. gefur út Bjarma, timarit um kristna trú sem kemur út þrisvar á ári, 48 bls. í senn. Er það selt í áskrift, annað hvort rafrænt eða prentað. Nánari upplýsingar á bjarmi.is eða saltforlag.is.