Verkefni um safnaðatengsl þjóðkirkjusafnaða við kirkjur í Afríku er byggt á starfi Kristniboðs- og hjálparstarfsnefndar Þjóðkirkjunnar sem hafið var á árinu 2008 að tilhlutan Karls Sigurbjörnssonar biskups. Það beinist að söfnuðum í lúthersku kirkjunum í Eþíópíu, Keníu og Malawi.

Tengslin eru bein og milliliðalaus og án fyrirframgerðra skilyrða og byggjast á ráðgjöf og umsögn stuðningsaðila sem eru Kristniboðssambandið hér á landi og biskupsstofurnar í Afríkukirkjunum. Þau felast í  bréfaskiptum, miðlun frétta, mynda og upplýsinga sem og mögulegum heimsóknum og aðstoð.

Í hverjum söfnuði taka nokkrir aðilar að sér að annast tengslin og bréfaskriftirnar, samráð og miðlun fregna af tengslasöfnuðinum heima hjá sér. Markmiðið er að byggja upp og miðla þekkingu á lífi og högum safnaðanna til hver annars og bera vinasöfnuðinn á bænarörmum. Þetta kynni síðan að leiða til verkefna sem t. d. miðuðu að rekstri heimasíðu, kynningu í guðþjónustum eða samkomum, fjáröflun eða heimsóknum.

Sr. Jakob Hjálmarsson vinnur að verkefninu sem sjálfboðaliði fyrir Kristniboðssambandið og Þjóðkirkjuna. Hann starfar í Afríku frá janúar til mars á næstu árum, ef Guð lofar, og aflar upplýsinga og rekur þau erindi sem tengslasöfnuðir vilja fela honum.

Atburðarás tengslamyndunar gæti litið svona út:

  1. Söfnuður fær sr. Jakob til stuttrar kynningar með völdum hópi.
  2. Haldin er kynning fyrir áhugasama í tengslum við messu eða í öðru skilgreindu samhengi.
  3. Ákveðið er í sóknarnefnd að mynda tengslin og settur á fót hópur til að annast þau.
  4. Fulltrúar tengslasafnaðanna skrifast á og fundinn með því samstarfsgrundvöllur.
  5. Stuðningur SIK nýttur til að grundvalla ákvarðanir.
  6. Heimsókn frá SÍK í söfnuðinn til að efla tengslin og miðla upplýsingum.

Afríkumenn eru flestir þurfandi og ófeimnir að láta það í ljós. Viðbrögð við því skilgreinum við sjálf og af ábyrgð og gefum ekki ádrátt um hluti sem ekki verður staðið við. Munum að þeir geta einnig gefið og þannig verið myndugir í samskiptunum.

Ábatinn af þessu starfi er aukin þekking og meðvitund um stöðu fólks í þróunarríkjunum, um fjölbreytni kristilegs trúarlífs og gleði af því að gera öðrum gott. Í tengslaverkefninu eru fólgin sérstök verkefni barna- og unglingastarfs, öldrunarstarfs, fræðslustarfs, kóra og þemaguðsþjónusta. Þeir söfnuðir sem taka þátt verða fyrirmynd annarra í því að samþætta kristniboðshugsjónina öllu starfi safnaðarins.