Lokir – okkar maður á vettvangi

posted in: Fréttir, Kenía | 0
Julius Lokir
Julius og Grace kona hans

Kristniboðssambandið hefur ekki kristniboða með fasta búsetu í Pókothéraði eins og áður var. Í stað þess styrkir það útbreiðsluverkefni kirkjunnar sem hefur það skýra markmið að ná til nýrra, afskekktra svæða með gleðiboðskapinn um Jesú Krist. Stuðningur SÍK fer í að greiða laun, ferðakostnað og annað er snýr að rekstri útbreiðslustarfsins. Styrkurinn er rúmar tvær milljónir króna í ár. Einn þeirra sem þannig fá laun er presturinn Julius Lokir.

Julius komst til trúar árið 1990 þegar starfið frá Chepareria víkkaði út og færðist upp á fjöllin, og inn eftir þeim, á svæði sem kallast Lelan. Hann var ásamt góðum hópi skírður í maí 1991 í Lain, skammt frá Simotwo, þar sem hann býr með fjölskyldu sinni. Þau hjónin, Grace og Julius Lokir eiga sjö börn en hann er nú 50 ára.

Lokir tók fyrst þátt í fjarkennslu þar sem hist var einu sinni í viku og sótti síðan námskeið fyrir prédikara og í framhaldinu sérstakt námskeið í nokkur ár fyrir prestsefni sem haldið var til að bæta úr tilfinnanlegum skorti á prestum í ört vaxandi kirkju. Íslenskir kristniboðar tóku þátt í uppfræðslunni á öllum stigum.

Starfssvæði hans Norður-Pókot, sem áður hét Kara-Pókot eða Lokaða-Pókot frá þeim tíma er svæðið tilheyrði Úganda. Starfssvæði Lokir nær inn fyrir landamæri Úganda en þar býr hluti Pókotmanna frá fornu fari. Fólk hefur í áranna rás farið mikið á milli enda landamærin ekki sýnileg nema við helstu vegi. Í byrjun aldarinnar kom beiðni um að hefja starf á þessu svæði og hafa nokkrir söfnuðir byggst upp og smám saman fjölgar þeim.

Julius Lokir er okkar maður á vettvangi, ráðinn af kirkjunni en launa- og ferðakostnað greiðir SÍK sem á þá hann og fimm aðra fulltrúa á svæðinu. Biðjum fyrir Lokir sem þarf að ferðast mikið, dvelja mikið að heima og sinna uppfræðslu og eftirfylgd fjölmargra ungra safnaða fyrir utan að heimsækja ný svæði svo fleiri kynnist kærleika Guðs í Jesú Kristi.