Frá árinu 2020 hefur Helga Vilborg Sigurjónsdóttir kristniboði og heimstarfsmaður SÍK séð um þætti á kristilegu útvarpsstöðinni Lindinni FM 102,9 þar sem hún flytur fréttir af kristniboði og stöðu kirkjunnar um víða veröld. Einnig fær hún reglulega til sín gesti í spjall sem hafa einhver tengsl við kristniboðsstarf á mismunandi vettvangi eða hafa heimsótt kristniboðsakurinn. Vegna veikinda hafa ekki farið nýir þættir í loftið nú í nokkrun tíma en í kristniboðsvikunni hóf þátturinn aftur göngu sína. Fyrir þá sem misstu af þeim þætti er hægt að hlusta á hann hér.
Þættirnir verða nú vikulega á mánudögum kl.16 sem áður og í dag mánudaginn 10. mars verða fluttar fréttir frá Gabríel Einarssyni kristniboða í Japan (sem SÍK styrkir fjárhagslega) og frá starfi dönsku systurhreyfingar okkar (DLM) í Kambódíu. Gestur þáttarins verður Margrét Helga Kristjánsdóttir sem stundar nám í líf og læknavísindum í háskólanum í Linköping sem ætlar að deila með hlustendum upplifun sinni af því að vera kristinn námsmaður í Svíþjóð.
Þátturinn er endurtekinn síðar í vikunni m.a.á laugardagsmorgnum kl. 9 en einnig er verða þeir fljótlega eftir spilun aðgengilegir á netinu og í appi Lindarinnar Lindin mín.
Kristniboðssambandið tekur virkan þátt í starfi Lindarinnar sem fagnar 30 ára afmæli í ár. Auk vikulega þáttarins flytur framkvæmdastjóri reglulega boðskap dagsins og fulltrúi SÍK situr í stjórn stöðvarinnar. Á appinu má finna mikið af góðu og uppbyggilegu kristilegu efni m.a. efni úr fórum starfsfólks og sjálfboðaliða á vegum SÍK. Þar má nefna Biblíulestra og kennslu frá kristniboðunum Skúla Svavarssyni og Ragnari Gunnarssyni. Sr. Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur á Akureyri og stjórnarmaður í SÍK hefur einnig búið til þætti og svo mætti áfram telja.