Vakning í Íran

Þótt kristin trú sé stjórnarskrárvarinn réttur fólks í Íran hafa kristnir og kirkjur þeirra sætt ofsóknum í landinu um áratugaskeið. Og þeim sem snúast frá íslam til kristni er beinlínis búin lífshætta. Undanfarið hafa borist fregnir af mótmælum víða í landinu. Að sögn varð gremja fólks vegna hækkandi eggjaverðs til þess að mótmælin hófust í byrjun desember sl. en ljóst þykir að fleira býr þar að baki. Mótmælin beinast í raun að spillingu stjórnvalda og ofríki.

Þar sem íslam er samofið stjórnmálum og löggjöf landsins þá hafa mótmælin veitt þeim ákveðið svigrúm sem vilja segja skilið við íslam og gerast kristnir. Flestar kirkjur í Íran eru heimakirkjur og skilaboðin sem berast frá þeim til fjölmargra kristilegra vefmiðla er að nú fjölgi hratt þeim sem vilja fylgja Jesú; að um vakningu sé að ræða.

Biðjum fyrir íbúum Írans, að þeir fái kynnst friði Guðs og náð í Jesú Kristi, og taki við honum í  hjarta sér. Biðjum Guð að blessa þá sem þora að boða fagnaðarerindið við hættulegar kringumstæður og biðjum Guð að blessa sjónvarpsstöðina SAT-7 sem sendir vandað kristilegt efni á farsí og fleiri tungumálum sem töluð er í landinu. Biðjum fyrir Íran.