Utanríkisráðuneytið styrkir frekari byggingaframkvæmdir stúlknaframhaldsskólans í Propoi

Þróunarsamvinnusvið utanríkisráðuneytisins hefur svarað umsókn um styrk til byggingaframkvæmda við stúlknaframhaldsskólann í Propoi jákvætt. Sótt var um 8,8 milljónir og var samningur undirritaður þar um fyrir síðustu helgi. Framlag Kristniboðssambandsins er um 1,2 milljónir og framlag heimamanna um 3,5 milljónir íslenskra króna.

Um er að ræða að ljúka byggingu skrifstofubyggingar sem er á tveimur hæðum og verða skólastofur á efri hæð. Vegna kostnaðar við að jafna landið, en lóðin er að mestu leyti í halla, var ákveðið að stefna á tvær hæðir er bygging hófst fyrir 3 árum. Utanríkisáðuneytið styrkti einnig fyrsta áfangan, þ.e. neðri hæð hússin.

Framlag heimamanna var nú í janúar notað í að koma upp sperrum fyrir þak hússins og þakstáli, sem ætlunin var að gera hvort sem unnt yrði að halda áfram eða ekki. Nú á eftir að koma upp veggjum, ytri sem innri, pússa, flísaleggja gólf, mála veggi, koma í hurðum og gluggum sem þarf að glerja og leggja rafmagn og einhverjar pípulagnir. Vonir standa til að með þessu framlagi megi ljúka við bygginguna.

Nemendur eru nú 520 talsins  og skólinn hefur bætt mjög tækifæri stúlkna til náms, bæði á framhaldsskólastigi og opnar um leið tækifæri til háskólanáms. Skólinn fylgir í öllu námsskrá yfirvalda sem greiða laun flestra kennaranna.

Framkvæmdir hefjast á næstu vikum, en samhliða þessu verkefni er verið að byggja fyrsta áfanga framhaldsskóla fyrir stúlkur í Kamununo í Norður-Pókot í tæplega 150 km fjarlægð frá Propoi miðað við akstur á skástu vegum sem í boði eru.

Propoi er svæðið þar sem kristniboðsstöðin í Chepereria stendur, þar sem íslenskir kristniboðar hófu störf fyrir 40 árum. Hluti af lóðinni var tekinn undir skólann og húsakostur kristniboðsins er að hluta nýttur fyrir skólann.