SAT-7 byrjar útsendingar á skólarás fyrir börn flóttamanna

Nýja rásin heitir SAT-7 ACADEMY og hefjast útsendingar á henni 1. september. Útsendingar verða allan sólarhringinn og námsefnið er á arabísku. Milljónir flóttamanna og barna þeirra munu með þessum útsendingum fá tækifæri til að taka þátt í gagnvirku „skólastarfi“.

Talið er að þrettán milljón börn hafi, vegna stríðsátaka, þurft að yfirgefa heimili sín og skóla. Þeir skólar sem ekki eru rústir einar eru yfirfullir og ótti við ofbeldi og átök hefur leitt til kennaraskorts og margir foreldrar eru smeykir við að senda börnin sín í skóla. Fjölskyldur flýja í von um betra líf en stefna um leið framtíð og menntun barna sinna í tvísýnu. Hætt er við að heil kynslóð verði án menntunar.

SAT-7 ACADEMY er ætlað að brúa bilið eins og hægt er. Efni stöðvarinnar miðar að því að efla og  hvetja foreldra til þátttöku í námi barna sinna. Auk akademískrar nálgunar er lögð áhersla á félagslegan og sálrænan þroska barna.

Á meðal efnis eru eftirfarandi þættir:

Læknirinn þinn – ýmsar heilsufarstengdar upplýsingar, líkamshirða, fyrsta hjálp og mikilvægi hreyfingar.

Sögur sagðar – þessi þáttur er ætlaður börnum sem glíma við áfallastreituröskun.

Ráðgjafinn – þáttur þar sem fjölskylduráðgjafi fer yfir ýmislegt í uppeldi barna auk þess að ræða áföll og tilfinningar.

Skólinn minn – er þáttur sem sýndur hefur verið lengi á barnarás SAT-7 en verður nú fluttur yfir á nýju rásina. Þessi þáttur hefur notið mikilla vinsælda og talið að um ein milljón barna hafi um lengri eða skemmri tíma fylgst með honum. Þar er með gagnvirkum hætti kennt að lesa, reikna og skrifa.

Fjölmargir sérfræðingar á sviði mennta- og uppeldismála koma að gerð þáttanna og efni þeirra að sjálfsögðu sniðið að arabískri menningu og siðum. Biðjum algóðan Guð að blessa þessar útsendingar að þær megi tala inn í líf og aðstæður fólks með kærleika Jesú Krists.