Fjellhaug

Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir stundaði nám í biblíuskólanum á Fjellhaug í Noregi í fyrra. Í vetur stundar hún nám við kristniboðaskóla á sama stað. Hér er vitnisburður hennar.

Í biblíuskólann á Fjellhaug kemur margt ungt fólk til að einbeita sér heilan vetur sérstaklega að því að kynnast Guði betur og læra að þekkja vilja hans. Þar var ég umkringd kristnu fólki á öllum aldri og fékk margar fyrirmyndir í trúnni. Það var eðlilegur hluti af hversdagslífinu að lesa í Biblíunni, biðja saman, ræða um líf og trú og uppörva hvert annað. Starfsfólkið var til staðar fyrir okkur nemendurna til að leiðbeina okkur, ráðleggja og hjálpa sem best það gat.

Í skólanum lærði ég enn betur um það sem Jesús gerði fyrir mig, hversu umfangsmikið, stórt og þýðingarmikið það er í raun. Efni Biblíunnar var tengt daglegu lífi okkar. Það var talað opinskátt um erfiðleika sem við glímum við, að við erum ófullkomnar manneskjur og getum ekki verið neitt annað í eigin mætti, og hvernig Biblían og fagnaðarboðskapurinn varpa ljósi á líf okkar og gefa okkur von. Það skapaðist þannig andrúmsloft í hópnum að við gátum talað um hvernig okkur leið og verið opin um lífið, hugsanir og tilfinningar okkar. Ég var óvön þessu en þetta var ótrúlega hjálplegt og heilbrigt. Þannig urðum við nemendurnir nánari, lærðum hvert af öðru og skildum hvert annað betur.

Í samtalstímum með kennara lærði ég margt um sjálfa mig og fékk hjálp til að vinna úr mjög mörgu sem ég glímdi við andlega. Það hjálpaði mér m.a. að skilja hvers vegna það var mér erfitt að taka við kærleika Guðs.

Ég þekkti Biblíuna mjög vel. Ég hafði oft heyrt fagnaðarerindið. Það var samt eitthvað við reynslu mína og bakgrunn sem gerði það að verkum að ég gat ekki tekið við því af heilu hjarta. Mér fannst erfitt að trúa því að Guð sæktist eftir mér. Ég átti auðvelt með að lofa stóran og almáttugan Guð og dást að fegurð hans og mætti en ég gat ekki hjúfrað mig í fang hans, kallað hann pabba og fundist ég örugg. Ég skildi ekki hvað hann vildi með einhvern eins og mig. Mér fannst framhleypni að biðja háan og almáttugan Guð um að fá að vera barnið hans. Ég reyndi að finna út hvernig ég gæti lifað fyrir hann og hlýtt honum, hvernig ég gæti fengið hann til að vera sáttur við mig. En það var svo vonlaust. Ég trúði ekki að hann vildi eiga mig eins og ég var. Ég gat ekki trúað því að hann elskaði mig bara, punktur.

Ég kom til Fjellhaug því mér hafði fundist lengi að ég ætti að verða kristniboði. En ég vissi, þegar hér var komið sögu, að ég gat ekki orðið kristniboði nema ég hefði frelsisvissu sjálf. Og nú skildi ég að hana vantaði. Það var ekki nóg að vita bara hvernig frelsið virkaði, mig skorti trú á það, sama hversu mikið ég þráði hana. Við lok skólaársins hafði ég glímt við margt og var þreytt og mér fannst að allt trúarlífið mitt hingað til hefði bara verið vitleysa, ég hefði aldrei verið frelsuð, aldrei þekkt Guð, allt líf mitt væri bara hræsni. Ég fékk hjálp og leiðsögn frá kennaranum mínum og svo fikraði ég mig smáum skrefum í átt að Guði aftur með því að biðja einfaldlega: „Faðir, viltu gefa mér trú.“ Trú á að þú bjargir mér, að þú sért hjá mér, að ég sé barnið þitt. Opnaðu augu mín svo að ég skilji fagnaðarerindið og geti trúað af öllu hjarta því sem þú hefur sagt og því sem þú hefur þegar gert fyrir mig. Mér fannst ég vera að byrja trúarlífið mitt algjörlega upp á nýtt, frá nýjum byrjunarreit.

Ég þurfti að hætta að reyna sjálf. Allt sem ég reyndi að gera sjálf mistókst. Ég þurfti að biðja Guð um allt, eins og barn biður föður sinn. Það gekk ekki alltaf vel.

Í sumar var ég svo beðin um að segja nokkur orð í kirkjunni minni á Íslandi. Á þeim tíma bað ég oft á dag: „Guð, gefðu mér trú.“ Mér fannst Guð nota þetta tækifæri til að gefa mér nýjan skilning á því sem ég „vissi“ nú þegar. Réttlætið sem við þurfum til að geta komið til Guðs er gjöf. En einnig trúin á að þetta sé satt er gjöf frá Guði sem við getum ekki framkallað í okkur sjálf.

Að kvöldi sama dags og ég talaði í kirkjunni lá ég uppi í rúmi dauðþreytt og reyndi að biðja til Guðs en það gekk mjög illa því svo margar hugsanir fylltu huga minn. Mér leið eins og ég væri föst í myrkri sem ég gat ekki séð út úr. En svo bauð ég Jesú inn í myrkrið og reyndi að ímynda mér að hann væri hjá mér. Ég fann svo áþreifanlega hvað ég var bjargarlaus. Ég fyndi aldrei trúna, frelsið og Guð upp á eigin spýtur. Þá sá ég Jesú koma til mín og taka mig upp og bera mig alla leið í faðm föðurins. Þannig virkar það. Hann ber mig þangað sem ég get ekki gengið. Nú færðist kunnáttan frá höfðinu til hjartans og ég skildi það sem ég hafði heyrt og lesið. Jesús tók burt skuldina og fjandskapinn við Guð, færði mér réttlæti sitt í staðinn og lagði mig við hjarta Guðs föður sem barnið hans, sem hann lítur á með velþóknun og elskar. Hann sér sinn elskaða Jesú í mér. Hann nýtur þess að gera fyrir mig það sem ég get ekki, ef ég kyngi stoltinu og kem til hans. Ég verð að treysta því að hann bjargi mér, breyti mér, leiði mig og vísi mér veg því ég get það ekki sjálf. Það sem hafði alla tíð verið svo óeðlilegt og skrítið varð allt í einu svo fallegt, gott og satt! Ég gat kallað Guð pabba. Hann var mér ekki reiður heldur sagði hann: „Barnið mitt, hvers vegna komstu ekki fyrr?“

Guðbjörg Hrönn