Eitt skólaverkefni tekur við af öðru í Keníu

Þær átta skólastofur sem reisa átti við fjóra grunnskóla á jaðarsvæðum Pókot og Túrkana eru nú risnar og verkefninu að mestu lokið. Unnið er að endurskoðun og lokaskýrslu sem væntanleg er á næstu vikum.

Þá samþykkti þróunarsamvinnusvið Utanríkisráðuneytisins í haust umsókn SÍK um styrk við fyrsta byggingaráfanga framhaldsskóla fyrir stúlkur í Kamununo, fjalllendi í norðurhluta Pókot. Skólinn hóf störf í janúar með samþykki yfirvalda, en þó var varla nein aðstaða fyrir hendi. Fékk skólinn lánaða kirkjubyggingu í nágrenninu sem skipt var í tvennt, heimavist og kennslustofu. Í raun er ótrúlegt hvað unglingar í Pókothéraði eru tilbúnir til að leggja á sig og sætta sig við til þess að fá menntun.

Nýju byggingarnar verða vonandi tilbúnar á fyrri hluta komandi árs enda mun nýr árgangur bætast við í janúar. Byggja á heimavist fyrir 64 stúlkur, salerni, aðgreint frá salernum starfsmanna, tvær kennslustofur og skrifstofubyggingu með kennarastofu og aðstöðu fyrir stjórnendur skólans.

Ekki leikur vafi á að skólinn gegnir mikilvægu hlutverki þar sem stúlkur hafa ekki átt auðvelt með framhaldsskólanám á svæðinu. Bætt aðstaða nemenda og kennara bætir skólastarfið og skilar betri árangri nemenda. Skólinn bætir aðgang stúlkna að menntun og réttir hlut þeirra.

Enn kjósa bæði nemendur og foreldrar að nýta sér heimavistir þar sem húsakostur heima fyrir er lélegur og lýsing og aðstaða til náms takmörkuð.

Samstarfsaðili SÍK, Lútherska kirkjan í Keníu, styður við bakið á 25 framhaldsskólum og tekur þátt í byggingu þeirra. Þetta er sjöundi skólinn sem byggður er að hluta eða miklu leyti fyrir fjármagn fá Íslandi.

Ragnar Gunnarsson