Posted on

Útvarpskristniboð

Kristilegi útvarpsþátturinn Poppkorn er barnaþáttur sendur til Kína. Komið hefur í ljós að hann er ekki síður vinsæll á meðal fullorðinna.

Kína stúlka útvarpKristniboðssambandið hefur nú í mörg ár kostað þennan þátt sem norska útvarpsstöðin Norea vinnur í samvinnu við Voice of Salvation (Rödd hjálpræðisins) á Tævan. Efni þáttanna er eins konar sunnudagaskóli á öldum ljósvakans með biblíusögum og söngvum. Þemað er kærleikur og virðing í ljósi Biblíunnar.

Um fimm milljónir barna hlusta á Poppkorn í hverri viku en fullorðnir hafa líka gagn og gaman af þáttunum eins og fram kemur í þakkarbréfum sem útvarpsstöðin fær.

52 ára gamall áheyrandi skrifar: „Ég hef hlustað á útvarpsþáttinn Poppkorn í tíu ár, bæði á stuttbylgju og netinu. Ég hef kynnst Drottni betur.“

Þörfin á kristinni fræðslu er mikil í Kína. Það fækkar í söfnuðunum í sveitunum þar sem svo margir flytja til borganna í atvinnuleit. Þættir eins og Poppkorn geta frætt fólk um grundvallaratriði kristinnar trúar.

„Ég hef lært mikið af þáttunum og ég nota það þegar ég kenni í sunnudagaskólanum. Ég þakka Guði fyrir að ég má fræða börn og ég þakka ykkur sem gefið okkur andlega fæðu í þáttunum,“ skrifar kona sem hlustar á barnaefnið Poppkorn.

(Heimild: Norea.no)