Categories
Fréttir

Útvarpskristniboð – Heimilisofbeldi

KonaEitt af þeim verkefnum sem Kristniboðssambandið styður er útvarpsstarf, Norea Radio. Það tekur þátt í verkefni sem kallast Hanna. Verkefnið fest í því að uppörva þjáðar konur um allan heim með vitundarvakningu, útvarpssendingum og markvissu bænastarfi. Útvarpssendingar eru á 64 tungumálum og mánaðarlegir bænalistar gefnir út á 77 tungumálum og dreift í 124 löndum. Í ágúst er beðið fyrir konum sem búa við heimilisofbeldi. Í bænabréfinu segir:

Eiginmaður Rósu slær hana daglega. Hún á tvo uppkomna syni sem verja ekki móður sína af ótta við föðurinn. Ef Rósa veikist skiptir maðurinn hennar sér ekki af henni. Rósa óttast um líf sitt en hefur engan stað að fara á nema götuna. En þrátt fyrir aðstæður sínar segir hún starfsfólki Hönnu-verkefnisins að hún fái uppörvun og fyllist von við að hlusta á þáttinn Von kvenna. Þátturinn hjálpar henni að lifa af daginn. Hún er þakklát að til sé fólk sem biður fyrir henni og reynir að uppörva hana. Hún óskar þess að maðurinn hennar kynnist Guði.

Ofbeldi finnst í öllum löndum, í öllum stéttum og hjá öllum trúarhópum. Margir sætta sig við heimilisofbeldi og telja það hluta af fjölskyldulífinu. Í sumum menningarsamfélögum halda konur að þær verðskuldi að vera slegnar af eiginmönnum sínum ef þær hlýði þeim ekki. Allt of margar konur, sem eiginmenn hafa yfirgefið, halda að þær verði að taka við þeim aftur ef þeir snúa tilbaka. Margar konur óttast eiginmenn sína meira en nokkra aðra. Í mörgum kirkjum má ekki ræða ofbeldi á kristnum heimilum. Fáir kirkjuleiðtogar hafa komið upp athvarfi fyrir konur sem hefur verið misþyrmt. Það er auðmýkjandi og eyðileggjandi að verða fyrir ofbeldi eða misþyrmingum hvort sem það er í orðum, athöfnum,  er líkamlegt eða andlegt, frá fjölskyldumeðlimi, forráðamanni eða einhverjum sem viðkomandi elskar. Í ágúst er beðið fyrir konum sem búa við heimilisofbeldi eða misþyrmingar af hendi einhvers náins. Tökum þátt í bæn fyrir konum sem búa við ofbeldi, hvar sem er í heiminum. Ef einhver óskar eftir bænalista ágústmánaðar má finna hann á norea.no.

(Heimild: norea.no)