UL20 er kristilegt mót fyrir ungt fólk á aldrinum 16-30 ára! Áherslan er á fræðslu um kristniboð og grípandi prédikun. Frábærar samkomur og skemmtileg dagskrá.

Dagana 21.-25. júlí 2020 heldur NLMung árlegt landsmót sitt í skemmtigarðinum Kongeparken í útjaðri Stavanger. Dagskrá mótsins miðast við 16-30 ára. Mótið hefur upp á að bjóða góða fræðslu grundvallaða á Biblíunni, spennandi fyrirlesara frá ýmsum heimshornum og magnaðar lofgjörðarstundir. Þar fyrir utan er hægt að taka þátt í mörgum spennandi dagskrártilboðum s.s. go-kart, brimbrettakennslu, klifur, dans og göngu upp á Preikestolen í stórbrottinni náttúru. Á mótinu hafa þátttakendur mikið frelsi til að velja úr dagskrártilboðum og mörg tækifæri til að kynnast norskum jafnöldrum sínum.

Kynningarmyndband fyrir UL19.

SÍK skipuleggur ferð á mótið og útvegar fararstjóra. Auk þess er unnið að því að bjóða upp á íslenska túlkun í stað enskrar túlkunar sem er í boði en mótið fer aðallega fram á norsku. ATH – Ferðadagar eru þriðjudagur 21. júlí og 26. júlí.

Markmið ferðarinnar

• Að þátttakendur uppfræðist og eflist í trú á Jesú og eftirfylgdinni við hann.
• Að þátttakendur finni hvatningu í stórum hópi norskra trúsystkina sinna.
• Að þátttakendur njóti góðs félagaskapar og skemmtunar með ferðafélögum og öðrum mótsgestum.

Yfirskrift UL20 er Global.

Guð skapaði heiminn. Og hann skapaði okkur mennina. Guð kallar okkur til þess að vera góðir og ábyrgir ráðsmenn jarðarinnar, elska hvert annað og flytja fagnaðarerindið öllum heimi. Við ætlum að skoða hvað þetta þýðir árið 2020. Milljónir manna lifa í fátækt, menn eru þrælkaðir, náttúran þjáist vegna ágangs mannanna og enn þá hafa margir ekki heyrt gleðiboðskapinn um Jesú Krist frelsara mannanna. Við erum kölluð til að láta til okkar taka.

Sérstakur gestur: Chris Tomlin

Tónlistarmaðurinn Chris Tomlin mun halda tónleika á UL20 en hann er víða þekktur innan kristinnar kirkju fyrir lofgjörðartónlist sína. Mikil tilhlökkun er fyrir því að sjá hann stíga á stokk og syngja með lögum hans Guði til dýrðar.

Gisting

Íslenski hópurinn fær dýnur og gistiaðstöðu í skólastofum í um 15 mín. fjarlægð frá mótsvæðinu.

Hvað kostar?

Mótið og gisting er þátttakendum að kostnaðarlausu!

Kostnaður við ferðina er fólginn í hóflegu þátttökugjaldi (vegna fararstjórnar og umsýslu), flug- og rútufargjöldum, matarkostnaði og gjöldum fyrir stærri skemmtiferðum. Mótsgjaldið sjálft er niðurfellt af NLMung sem ferðastyrkur fyrir Íslendingana.

Upplýsingar um áætlaðan kostnað:
Þátttökugjald SÍK 5000 kr.
Gisting: 0 kr.
Mótsgjald 0 kr.
Flug: 60.000 kr. (millilent)
Rúta: 4.000 kr.
Matur: 15.000 kr. (áætlað, hver og einn heldur utan um sín innkaup sjálfur)
Skemmtiviðburðir og ferðir (valfrjálst): 15.000+/- kr.
Heildarkostnaður (áætlað): 85.000-100.000 kr.

Þátttaka

Þeir sem vilja koma með á UL20 er bent á að skrá sig hér fyrir neðan. Aldurstakmark er 16 ára og miðað er við aldurár.

Skilyrði fyrir þátttöku á UL20 er mæting á fjögur fræðslukvöld um kristniboð og tengd efni. Þar að auki þurfa þátttakendur að vera tilbúnir til þess að segja saman frá ferðinni með kynningu á miðvikudags- og sunnudagssamkomu hjá SÍK og með skriflegri frásögn í Kristniboðsfréttir.

Skráning

Skráning er opin og lýkur 15. mars 2020 lýkur 15. maí 2020. Skráning telst ekki gild fyrr en 15.000 kr. staðfestingargjald hefur verið greitt. Reikningur SÍK er 0117 26 9000, kt. 550269-4149. ATH: Mikilvægt er að nafn þátttakanda komi fram í skýringu og að rafræn tilkynning sé send á sik@sik.is

Hafi þátttakandi ekki náð 18 ára aldri ber honum/henni að skila leyfisbréfi undirritað af forráðamanni (ekki nauðsynlegt að votta undirskriftir). >>Leyfisbréf má finna hér<<

>Skráningarform fyrir 18 ára og eldri.<
>Skráningarform fyrir yngri en 18 ára.<

Reglur ferðarinnar

 1. Munum gullnu regluna og förum eftir henni
 2. Umgengni lýsir innri manni. Göngum um allt húsnæði með virðingu. Valdi þátttakandi skemmdum á húsnæði og/eða eigum annarra er honum gert að bæta tjónið.
 3. Skyldumæting er á morgunstund og kvöldstund.
 4. Þátttakendur skulu gæta þess að hvílast nægilega til þess að geta tekið þátt í stundum mótsins.
 5. Þátttakendum er skylt að fylgja mótsreglum.
 6. Fararstjórar og mótshaldarar bera ekki ábyrgð á verðmætum (s.s. símum, spjaldtölvum, fartölvum, farangri eða öðru) sem þátttakendur taka með sér á mótið.
 7. Þátttakendum er skylt að mæta á fundi sem fararstjórar hópsins kalla saman.
 8. Meðferð og neysla áfengis og annarra vímuefna er óheimil í ferðinni.
 9. Tóbaksnotkun er ekki leyfð í ferðinni. Sama gildir um rafrettur.

Sérstakar reglur fyrir yngri en 18 ára

 1. Á auglýstum kyrrðartíma eiga allir að vera komnir á sína svefnstaði og forðast háreysti.
 2. Þátttakendur skulu ekki vera einir á ferð utan mótssvæðis heldur vera ávallt í fylgd annarra úr hópnum.
 3. Óheimilt er að yfirgefa mótssvæðið nema með leyfi fararstjóra.

Um mótshaldara

NLMung eru sjálfstæð kristileg félagasamtök sem reka barna- og ungmennastarf norsku kristniboðshreyfingarinnar NLM (Norsk Luthersk Misjonssamband). SÍK hefur um áratugaskeið verið í samstarfi við NLM á vettvangi kristniboðs í Kenýu og Eþíópíu og nú í dag í Japan.

Heimasíða NLMung er www.nlm.no/nlmung

Heimasíða NLM er www.nlm.no

Vefsíða UL20 er www.ul.no