Þýðing Biblíunnar yfir á tungumál Tsemaímanna gengur vel

Eitt af þeim verkefnum sem Kristniboðssambandið tekur þátt í með fjárhagslegum stuðningi er þýðing Biblíunnar yfir á tsemakko sem er tungumál Tsemaimanna en flestir þeirra búa í Voítódalnum í SV- Eþíópíu þar sem íslenskir kristniboðar hafa búið og starfað. 

Þýðing Biblíunnar á tsemakko mál Tsemai manna gengur vel þrátt fyrir áskoranir.  

Nú hefur verið lokið við þýðingu á guðspjöllunum fjórum, 1. og 2. Þessalóníkubréfi, 1. og 2. Tímóteusarbréfi og Postulasögunni og eru þessar bækur aðgengilegar í appi fyrir síma. 

Guðspjöllin fjögur voru einnig  gefin út á bók og sem hljóðbók eru nú í notkun meðal fólksins 

Hópur af ungu fólki sem tilheyrir kirkjunni á svæði Tsemai fékk þjálfun í að lesa  og skrifa á móðurmálinu en það  eru aðeins um fjögur ár síðan endanlegt ritmál var ákveðið og tekið í notkun meðal Tsemaifólksins. Þessi þjálfun fór fram undir forystu Buno Muda Kora sem er hluti af þýðingarteyminu og stýrir m.a. verkefni sem tengist því að koma orði Guðs í notkun meðal Tsemaifólksins. Buno var fyrsta konan af Tsemai þjóðflokknum sem lauk háskólanámi og hefur starfað við þýðingarvinnuna síðan þá ásamt eiginmani sínu Hailu Berhanu Golla 

Jesúmyndin (The Jesus film) var talsett yfir á Tsemakko árið 2017 og var það hluti af vinnu þýðingarteymisins. Yfir 2000 manns hafa nú séð myndina. Þetta er kvikmynd frá árinu 1979 um líf og störf Jesú sem talsett hefur verið á yfir 1600 tungumál og notuð er til boðunar um allan heim. 

Þýðingarferlið tekur langan tíma. Ein áskorunin er að tungutak Biblíunnar er tiltölulega nýtt í menningu og tungumáli Tsemaimanna og oft vandasamt að finna réttu orðin.

Ferlið fer fram í sex þrepum eins og hér er lýst: 

  1. Drög: Einn þýðandi gerir fyrstu drög
  2. Teymis yfirferð:  Þýðingarteymið í heild, sem samanstendur af þremur þýðendum, fara yfir drögin
  3. Ráðgjafa yfirferð: Allir ráðgjafar og þýðendur sem taka þátt í verkefninu taka við. Þetta fer stundum fram á netinu þar sem hluti af þessum hópi er staðsettur annaðhvort utan Voító eða jafnvel erlendis. Teymið samanstendur af guðfræðimenntuðum Tsemaimönnum og kristniboðum með sérþekkingu á tungumálum,  þýðingum og þýðingu biblíunnar.
  4. Samfélagsleg prófun: Á þessu stigi er fólki safnað saman frá mismunandi þorpum og svæðum þar sem tsemakko er talað. Bæði kristnum og ekki kristnum einstaklingum. Þýðendurnir lesa textan fyrir fólkið og fá þeirra álit, upplifun og endurgjöf. 
  5. Endurþýðing: Textinn sem farið hefur í gegnum þrep 1- 4 er þýddur orðrétt fyrir á ensku svo að tungumálasérfræðingarnir og ráðgjafarnir sem ekki tala tsemakko geti áttað sig á stöðunni. 
  6. Sérfræðiyfirferð: Öll teymi, þýðendur og ráðgjafar fara saman yfir textann til lokayfirferðar. Að þessu skrefi loknu segjum við að þýðingu bókarinnar sé lokið og hún tilbúin 

Áætlað  er að þýðingu Nýja Testamenntisins verði lokið árið 2023. Biðjum fyrir Hailu og Buno og þeim sem starfa með þeim að þessu verkefni, bæði innlendum og erlendum starfsmönnum. Þökkum fyrir hversu vel verkefnið hefur gengið og fyrir að nú fær Tsemaifólkið loksins að lesa Guðs orð á sínu móðurmáli.