Þau eiga trú, von og kærleika

posted in: Óflokkað | 0
Hluti tæplega 550 nemenda í Prpopi Girls’ High School

Rætt við sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur vígslubiskup vegna heimsóknar til Keníu.

Þann 21. janúar s.l. hélt hópur 11 Íslendinga á kristniboðsslóðir í Pókot í Keníu.

Hópurinn var undir leiðsögn sr. Kjartans Jónssonar sem var kristniboði á þessu svæði  á síðustu öld ásamt konu sinni Valdísi Magnúsdóttur.  Þá höfðu Skúli Svavarsson og kona hans Kjellrun Langdal starfað þar í tvö ár.

Við spurðum sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur vígslubiskup á Hólum af hverju hún ákvað að fara í þessa ferð.

Ég kom fyrst til Kenya og Tanzaníu árið 1996 og var þá boðið á mannréttindaráðstefnu Afríkuríkja á vegum Lútherska heimssambandsins.  Þá hafði ég ekki tækifæri til að heimsækja kristniboðsstöðvarnar, en hef átt þann draum síðan.  Þegar boðið var upp á þessa ferð með sr. Kjartani stökk ég til og ákvað að fara með.  Það er stór þáttur í starfi okkar biskupanna að vísitera söfnuði og ég lít svo á að þeir söfnuðir sem Íslendingar hafa stofnað á kristniboðsakrinum séu að einhverju leyti hluti af kirkjunni okkar og þegar við heimsóttum söfnuði í Pokot fékk ég það sterklega á tilfinninguna að það er þeirra skilningur líka.

Ámsamt Jamas Murray Nandako skólastjóra stúlknaframhaldsskólans í Propoi

Hvað kom þér á óvart?

Það sem kom mér mest á óvart hvað þetta voru margir söfnuðir sem íslensku kristniboðarnir stofnuðu í þessu eina héraði Pokot.  Það kom mér á óvart að sjá viðbrögð fólksins þegar þau tóku á móti sr. Kjartani.  Fólk grét þegar hann kom og honum var tekið sem þjóðhetju.  Hann og Valdís, Skúli og Kjellrun og Ragnar og Hrönn breyttu algerlega lífi þessa fólks.  Þau eiga trú, von og kærleika sem mótar allt þeirra líf. Þau eiga von um eilíft líf og það var þeim afar mikils virði.  Það kom líka á óvart að ég var beðin um að ávarpa alla söfnuði sem við heimsóttum og alla nemendur í skólunum.  Ég hafði reyndar mjög mikla ánægju af því og hafði á tilfinningunni að ég hefði breytt einhverju í lífi þeirra.

Starfsmenn Biskupsstofunnar fylgdu okkur allan tímann og fannst mikið til heimsóknar okkar koma.

Mest kom mér á óvart þegar við vorum í messunni í Chepareria þegar presturinn sagði við mig þegar verið var að syngja sálminn eftir guðspjallið:  „Nú predikar þú!“  Þetta var alveg dásamlegt!

Hvað kom ekki á óvart?

Það sem kom ekki á óvart var gleðin og söngurinn.  Fólkið notar algerlega sína eigin sönghefð sem það hefur gert kristilega texta við, en rythminn og klappið og lofsöngurinn snertir mann alveg inn að beini. Fátæktin kom heldur ekki á óvart.  Okkur var alls staðar boðið í mat, en maturinn var af skornum skammti og þau geta ekki menntað börnin sín án utanaðkomandi hjálpar.

Kjartan Jónsson kristnibooði heilsar gömlum vini, Susönnu í Kunyau.

Hvað stendur upp úr að lokinni ferðinni?

Það eru skólarnir, ekki spurning.  Í hverjum söfnuði má segja að það sé skóli, annað hvort grunnskóli eða framhaldsskóli.  Við heimsóttum líka munaðarleysingjahæli á vegum safnaðanna.  Þegar kristniboðarnir koma eru byggðar kirkju, stofnaðir skólar og heilsugæsla.  Stærsta upplifunin var að heimsækja kvennaskólann í Chepareria.  Þar ávarpaði ég 533 stúlkur og mátti heyra saumnál detta á meðan ég talaði til þeirra.  Ég sagði þeim að ég kæmi frá svo fámennu landi að ég hefði örugglega aldrei séð svo margar stúlkur í einu!  Ég sagði þeim að lykillinn að framtíð þeirra væri að mennta sig.  Ég taldi upp okkur 11 sem stóðum á svölum skólans og sagði frá menntun okkar.  Ég sagði stúlkunum að þær gætu orðið tannlæknar, hjúkrunarfræðingar, efnafræðingar, organistar, prestar og biskupar! Þetta var stærsta upplifun ferðarinnar.

Einnig fannst mér mjög athyglisverð sú breyting sem orðin er. En þegar sr. Kjartan kom til starfa í Pokot vann hann ásamt öðrum kristniboðum algjört brautryðjendastarf, eins og hann orðaði það: „Við byrjuðum undir tré.“

Í upphafi starfsins voru byggðar pínulitlar kirkjur með moldarveggjum og bárujárnsþaki, af miklum vanefnum víða um Pokot hérað, en nú hefur aldeilis verið gerð bragarbót á, því í næstum öllum söfnuðum sem hópurinn heimsótti var búið að byggja stórar og myndarlegar kirkjur eða þær voru í smíðum meira og minna með hjálp Íslendinga.

Nýbyggingin í Prppoi, Chepareria, styrkt verulega af utanríkisráðuneytinu

Hverju vilt þú koma til skila til lesenda viðtalsins?

Fyrst þetta: Takk Skúli og Kjellrun, takk Kjartan og Valdís, takk Ragnar og Hrönn fyrir ykkar stórkostlega starf og Guð blessi ykkur alltaf fyrir það.  Einnig takk til hinna sem komu á eftir ykkur, Leifur, Salóme Huld, Fanney og Fjölnir.

Til annarra vil ég segja: Ef þið hafið tækifæri til að heimsækja söfnuðina í Pokot eða á öðrum kristniboðsstöðum, ekki hika við að gera það.  Það mun breyta lífi ykkar.

Við þökkum sr. Solveigu Láru fyrir að leyfa okkur að skyggnast inn í þá góðu upplifun sem þessi ferð var.

Ásamt Somson Lokipuna biskupi