Sumargjöf með valkröfu

posted in: Fréttir | 0

Áskrifendur Kristniboðsfrétta fengu senda valkröfu í netbanka sinn fyrir tveim vikum. Á árum áður voru sendir gíróseðlar til fólks með tilheyrandi kostnaði en nú leyfum við okkur að gera þetta með þessum hætti. Ekki er svigrúm fyrir texta, annan en „styrkir“, en í næsta tölublaði Kristniboðsfrétta kemur klausa um þessa tilhögun.

Starf SÍK hefur alla tíð byggt á gjöfum. Sumir gefa af tíma sínum sem sjálfboðaliðar við margvísleg verkefni, um styttri eða lengri tíma. Fólk gefur þar með af hæfileikum sínum og getu. Aðrir gefa af því sem þeir eiga, eða jafnvel lána eitthvað eða leyfa notkun á einhverju sem þörf er fyrir. Og öll getum við gefið kærleika og náð, gleði og frið.

Kristniboð snýst jafnframt um að gefa – gefa nýja von, fyrirgefningu og náð, nýja byrjun og tækifæri til betra lífs með ýmsum hætti. Í stuttu máli er það boðun og kærleiksþjónusta sem ber virðingu fyrir náunganum. Þannig miðlum við, eða gefum, kærleika Guðs til annarra.

Innilegar þakkir til þeirra sem þegar hafa greitt valkröfuna og fyrir fram þakkir til ykkar sem hafið í hyggju að gera svo. Og hvort sem geta er til að greiða eða ekki, kosið að gera það eða ekki, biðjum við ykkur blessunar Drottins á björtum sumardögum. Gjafirnar nýtast til umfangsmikils starfs og verkefna í Afríku, Asíu, Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum.