Categories
Fréttir

Stuðningur við hina líðandi kirkju

Sat-7.1Nýir þættir á Sat-7 sjónvarpsstöðinni, sem sendir út á farsitungumálinu, eru farnir í loftið. Þættirnir kallast Guð og hinir ofsóttu (God and the persecuted) og hafa að markmiði að styrkja vaxandi fjölda húskirkna í Íran og hjálpa kristnu fólki að þola harðræði á tímum ofsókna.

Hver þáttur hefst á dæmi um nútíma ofsóknir og síðan eru skoðaðar þjáningar hinna kristnu á fyrstu þremur öldum kristninnar – þegar vöxtur húskirkna var hraður. Mansour Khajehpour, framkvæmdastjóri Sat-7 á farsi, segir: „Við minnum á að frumkirkjan leið og þjáðist en þrátt fyrir 2000 ára ofsóknir hefur kirkjan vaxið.“

Mansour eignaðist lifandi trú á Krist þegar hann var 15 ára. Hann útskýrir erfiðleika þess sem er hefur nýlega eignast trúna: „Ef þú tekur á móti Jesú Kristi í Íran segir þú engum frá því nema maka þínum. Allt í kringum þig eru njósnarar sem vilja svíkja þig svo trúin verður að vera í hjartanu. Kristið fólk missir stöðugt vinnuna, er útskúfað úr samfélaginu og af fjölskyldu sinni, er rekið úr skóla og af vinnustöðum, og er barið á götunum. Ég get með gleði og stolti sagt að ég hef persónulega reynt þetta allt.“

Þátturinn er fyrst og fremst ætlaður að styðja við trúað fólk í Íran og hjálpa því að bregðast biblíulega við andstreymi, reyna á náð og styrk Guðs. En Mansour vonar að þessir nýju þættir, Guð og hinir ofsóttu, muni gera fólk meðvitað um ofsóknirnar í Íran: „Við viljum höfða til kristinna farsimælandi manna sem búa utan svæðisins að muna eftir þjáningu kirkjunnar og standa með henni í stöðugri bæn.“

„Á hverjum degi koma starfsmenn Sat-7 á farsi saman og biðja fyrir áhorfendum. Við viljum að þeir sannfærist um að þeir séu ekki gleymdir. Þeir eru hluti af stærri heild, líkama Krists og hinir limir líkamans munu biðja fyrir þeim; bera umhyggju fyrir þeim og standa með þeim“, segir Mansour að lokum.

Kristniboðssambandið styður Sat-7 sjónvarpsstöðina fjárhagslega.