Stefnir í halla um áramót

SÍK eða Samband íslenskra kristniboðsfélaga vinnur að útbreiðslu kristinnar trúar hér heima og í útlöndum og sinnir kærleiksþjónustu bæði hér og þar. Starfsemi SÍK er umfangsmikil og kostar verulega fjármuni.

Fjárhagsleg afkoma eftir fyrstu 9 mánuði ársins var óhagstæð og ef litið er til fastra gjalda stefnir í nokkurra milljón króna halla þrátt fyrir góðar gjafir sem borist hafa. Rekstrarkostnaður hækkar milli ára og sumir tekjuliðir hafa hækkað sömuleiðis en duga ekki til. Mikið af kostnaði erlendis var greiddur á fyrri hluta ársins og hjálpar það mikið.

Velunnarar starfsins eru hvattir til að biðja fyrir starfsemi og rekstri SÍK, að afkoman verði jákvæð eða sem næst jafnvægi í árslok. Minnt er á bréf sem fylgir Kristniboðsfréttum þar sem hvatt er til að gefa kristniboðinu jólagjöf. Allir geta verið með og þannig er hægt að ná markinu og um leið verða fólki til blessunar.

Ragnar Gunnarsson