Categories
Fréttir

Starfsmenn Sat-7 í Suður-Súdan

Úr þættinum Með Jesú.
Úr þættinum Með Jesú.

Suður-Súdan hlaut sjálfstæði árið 2011 en í tvö ár hefur geisað borgarastyrjöld í landinu. Tvær milljónir manna hafa flúið heimkynni sín og um tíu þúsund hafa verið drepnir.

Sat-7 er kristileg sjónvarpsstöð sem Kristniboðssambandið styður fjárhagslega. Hún starfar í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Ein sjónvarpsrásin sendir eingöngu út barnaefni. Með Jesú er vinsæll tónlistar- og spjallþáttur fyrir börn á aldrinum 8-14 ára. Markmið þáttanna er að hjálpa ungum áhorfendum að eignast samfélag við Guð í bæn, lofgjörð og lestri Ritningarinnar. Í þættinum fer fram umræða um ýmis vandamál sem börn í þessum heimshluta glíma við.

Í Suður-Súdan  ríkir mikil eymd og fátækt og eyðilegging stríðsátaka er áberandi og því kom það starfsmönnum Sat-7 barnarásarinnar á óvart að finna gleði og þakklæti meðal munaðarleysingjanna sem þeir heimsóttu. Að heyra þá lofa Guð þrátt fyrir fátækt og þjáningu.

„Börnin voru svo glöð að þau tóku á móti okkur með söng og dansi“, sagði Milad Awad, sem var í Sat-7 hópnum.

Tilgangur fararinnar var að taka upp þriggja þátta seríu með börnunum. Mörg barnanna hafa gengið í gegnum skelfilega eldraunir. En þegar þau voru spurð um líf sitt voru þau full trúnaðartrausti og þakklæti svo starfshópur Sat-7 varð snortinn.

Emmanúel býr á munaðarleysingjaheimilinu.
Emmanúel býr á munaðarleysingjaheimilinu.

Bjargað frá misnotkun
Einn munaðarleysingjanna, Emmanúel 10 ára, missti móður sína þremur árum eftir að faðir hans lést. Hann var tekinn inn á heimili hjóna sem börðu hann og notuðu sem þræl. Dag enn þegar húsmóðirin hafði ásakað hann um óhlýðni kveikti húsbóndinn í kofanum þar sem hann svaf svo við lá að hann létist.

Honum var bjargað af munaðarleysingjaheimilinu og nú er Emmanúel glaður og öruggur. Hann sagði: „Þegar ég kom á munaðarleysingjaheimilið heyrði ég börn syngja. Mér voru gefin ný föt, nýir skór og nýr tannbursti og mér var kennt að hafa hljóða stund á hverjum morgni. Nú kann ég að eiga stund með Guði og lesa í Biblíunni. Í skólanum kenni ég vinum mínum að biðja og hlusta eftir rödd Guðs. Við biðjum og lofum Guð saman.“

Biðjum fyrir börnum munaðarleysingjaheimilisins. Hægt er að lesa meira á http://www.sat7uk.org/announcements/sat-7-kids-visits-orphans-in-south-sudan