Spennandi ferð til Keníu

Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir

Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir stundar nám í guðfræði- og kristniboðsfræðum á Fjellhaug í Osló. Hún fór með bekknum sínum í ferð til Keníu og segir hér frá ferðinni.

Við erum tuttugu manna hópur af fyrsta árs nemendum á Fjellhaug sem erum í fimm vikna ferð í Keníu. Er ferðin hluti af faginu „Verdensreligionene“ (Trúarbrögð heims). Fyrstu tvær næturnar gistum við á kristniboðsstöðinni í Nairobi en héldum svo til Pókot og hittum þar Erling Lundeby sem var með okkur á meðan við dvöldum þar.
Til Pókot fannst mér mjög gaman að koma, því ég hafði heyrt staðarnöfn og sögur þaðan. Við fórum til Sekerr, þorps hátt uppi í fjöllunum. Við hittum fólk við leik og störf, heimsóttum skóla og lékum við börn, borðuðum hænu, ugali (maísstöppu) og chapati (pönnukökur) í öll mál og vorum viðstödd tvær guðsþjónustur. Fyrir hálf níu á sunnudegi fylltist kirkjan af skólabörnum, þau yngri komu fyrst og settust hægra megin, svo stóðu þau og sungu og klöppuðu meðan þau eldri tíndust í bekkina vinstra megin og kirkjan ómaði af margradda söng þangað til messan byrjaði klukkan níu. Margir kórar komu fram og sungu í messunni, allt mjög taktfast og hreint. Börnin eru greinilega alin upp við söng og það heyrðist hvergi falskur tónn í allri kirkjunni. Börnin sátu stillt og prúð og hlustuðu með athygli á predikunina og tóku þátt í helgisiðunum með svörum og söng, upplestri úr Ritningunni og umsjá með samskotasöfnun.
Næsta törn byrjaði svo klukkan ellefu, fyrir fullorðna. Þeir sem mundu eftir Erling komu hver á eftir öðrum og lýstu því hvernig fólkið í þorpinu hafði lifað áður og hvernig allt breyttist eftir að kristniboðarnir kenndu þeim um Jesú. Ég er viss um að gömlu konurnar á fremsta bekk hafa sagt söguna um hvernig Jesús frelsaði þær, oftar en nokkur hefur tölu á.
Í Sekerr vorum við í tvo daga en það sem eftir var af vikunni gistum við á Biblíumiðstöðinni í Kapengúría. Ég varð himinlifandi að sjá íslenskar bækur og spil og myndir á veggjum í húsinu þar sem við borðuðum og hluti af hópnum gisti. Það var kallað húsið hennar Fanneyjar eða „Fanney’s house“. Í Kapengúría hittum við fólk sem hefur starfað lengi í kirkjunni og allir vildu segja frá því hvað þeir áttu kristniboðunum mikið að þakka. Fólkið romsaði upp nöfnum á norskum og íslenskum kristniboðum sem höfðu verið þar og sem það mundi vel eftir.
Næstu vikuna vorum við svo í Nairobi. Bæði í Kapengúría og í Nairobi kenndu kennararnir, sem voru með okkur í ferðinni, okkur annars vegar um búddisma og hins vegar islam. Þegar við fórum til Mombasar var Øivind Åsland, framkvæmdastjóri Norska kristniboðssambandsins (NLM) með í för. Hann var þar kristniboði á árum áður. Á leiðinni skoðuðum við m.a. hindúamusteri. Annars höfðum við kynnt okkur þá blöndu af islam og e.k. andatrú sem er ríkjandi á þessu svæði. Við hittum fólk sem sagði frá reynslu sinni af illum öndum og við hittum „mganga“ (seiðmann) sem er milligöngumaður við andaheiminn og framkvæmir fórnir fyrir fólk sem þarfnast hjálpar. Við sáum blóðidrifinn fórnarstað þar sem „mganga“ hafði nýlega fórnað geit fyrir konu sem ekki gat eignast börn. Við heimsóttum líka mosku og fræddumst um siði múslima. Þá heimsóttum við norska kristniboða sem starfa við austurströnd Keníu. Þeir reka þar skóla og kenna innflytjendum og flóttamönnum að lesa og skrifa, og ensku og swahili.
Við skiptumst á að lesa úr Guðs orði á kvöldin og það var góður andi í hópnum. Sumir í hópnum eru bara eitt ár á Fjellhaug en aðrir verða með mér í bekk í tvö ár í viðbót. Nú sit ég og skrifa ferðasöguna á símann minn á meðan við sitjum í lestinni til Nairobi frá Mombasa. Við fórum frá hótelinu klukkan hálf fimm í morgun og hótelstýran stóð í hliðinu þangað til rútan renndi úr hlaði og kvaddi okkur með þessari setningu: „Study hard, to become pastors and missionaries, and then come back“ (Leggið stund á námið og komið aftur sem prestar og kristniboðar). Fleiri hafa beðið okkur um að koma aftur þegar við erum búin í skólanum til að vera kennarar og forstöðumenn. Það er spurning hvort nokkurt okkar endar með að snúa aftur til að búa og starfa hér í Keníu en ég vona að fleiri en ég muni þessa setningu: „Study hard to become pastors and missionaries.“ Ég vona að við leggjum okkur öll fram í náminu meðan við erum á Fjellhaug og leyfum Guði svo að leiða okkur næsta skref.
Ég þakka allar fyrirbænir og bið Guð að blessa ykkur öll í Jesú nafni.
Kær kveðja,
Guðbjörg