Söfnuðurinn í Mwino

Kristniboðarnir Fanney Ingadóttir og Fjölnir Albertsson störfuðu í Pókot í nokkrar vikur í sumar. Hér segja þau frá ferð til Mwino.

Það tekur fjórar klukkustundir að aka til Mwino frá Kapengúría. Við lögðum að stað rétt eftir klukkan átta um morguninn. Salómon, sonur okkar, varð eftir heima en Susan og tveir af drengjunum hennar, Kevin og Dennis, komu með. Susan er frá Mwino, eins og fram kemur í frásögunni um hana, og var þar síðast fyrir um tveimur árum. Mamma hennar kom gangandi langa leið til að hitta dóttur sína og barnabörn og urðu það miklir fagnaðarfundir. Ástandið í Mwino var ekki slæmt miðað við hvernig þurrkurinn er búinn að vera á öðrum svæðum. Þarna er mikið af bananatrjám og maísökrum og vatn í ánni sem rennur eftir dalnum.

Að minnsta kosti fimm söfnuðir komu saman vegna þess að setja átti nýjan prest inn í starfið. Presturinn kemur frá Mt. Elgon svæðinu og heitir James Soka. Hann gaf af sér góðan þokka og söfnuðurinn fór til altaris sem gerist ekki oft á þessum slóðum. Margir kórar sungu og margar kveðjur og ávörp urðu til þess að guðsþjónustan var í lengra lagi, en hún byrjaði þegar við komum klukkan hálf tólf og lauk með því að allir kirkjugestir heilsuðust með handabandi klukkan hálf fimm.

Ég kveð ykkur með þeim orðum úr síðari Tímóteusarbréfi i sem fylgdu okkur þessar vikur sem við vorum í Pókot.

„Fyrir þá sök minni ég þig á að glæða hjá þér þá náðargjöf sem Guð gaf þér við yfirlagningu handa minna. Því að ekki gaf Guð okkur anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“

Oft tekur amstur dagsins yfirhöndina og þá er stutt í uppgjöf, svartsýni og pirring. Þessi vers blessuðu okkur mjög mikið og minntu okkur á að Guð hefur gefið okkur gjöf sem við eigum að nota með djörfung. Í Honum, Jesú, eigum við mátt og kærleika. Oft þarf ekki meira enn að líta upp, taka við  friði og blessun Hans, sem gefur ríkulega. Takk kæri kristniboðsvinur fyrir að fá að fara til Pókot í sumar!

Fanney og Fjölnir