Skólasjónvarp í Mið-Austurlöndum

Sat-7 hóf útsendingar á skólasjónvarpi, SAT-7 ACADEMY í síðasta mánuði. Útsendingar eru allan sólarhringinn og dagskráin fjölbreytt. Strax fyrstu vikurnar fékk stöðin fjölda jákvæðra viðbragða frá áhorfendum.

Þrettán milljónir barna eru ekki í skóla í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Skólabyggingar eru ýmist ónýtar, yfirfullar eða ótryggar vegna stríðsátaka. Yfir 50% íbúa í sumum löndum á svæðinu eru ólæsir. Þörfin á fræðslu og menntun er gríðarleg.

SAT-7 ACADEMY vill reyna að mæta þessari þörf. Stöðin fræðir börn, foreldra og kennara í hinum ýmsu námsgeinum en einnig um heilsufar, tilfinningar, sambönd manna á milli og viðhorf. Áherslan er á flóttamenn og börn þeirra en þættir stöðvarinnar hafa að markmiði að koma á jákvæðum breytingum fyrir alla. Þeir skora á fólk að hugsa öðru vísi, breyta viðhorfum sínum, meta fjölbreytileika og hvetja til aukinnar menntunar í Arabaheiminum.

Menntun leiðir til breytinga.

Breytingar gefa von.

Von veitir framtíð.

Sýrlensk móðir í flóttamannabúðum í Jórdaníu skrifaði stöðinni: „Það eru engir kennarar í flóttamannabúðunum. Getið þið hjálpað mér að kenna börnunum mínum? Mig langar að þau læri meira en ég kann.“

Kristniboðssambandið styður Sat-7 fjárhagslega. Ef þú vilt styðja stöðina er hægt að leggja inn á reikning 0117-26-2800, kt. 550269-4149 og merkja gjöfina Sat-7. Einnig er hægt að kaupa falleg gjafakort sem fást í Basarnum Austurveri.