Categories
Fréttir

Skólagjöld í Pókot

Kristniboðarnir Kjellrún og Skúli Svavarsson eru nú í Kapengúría í Pókothéraði í Keníu. Skúli kennir þar á námskeiði fyrir prédikara. Í bréfum frá þeim hjónum kemur fram að margir koma til þeirra í leit að peningum til að greiða skólagjöld fyrir börnin sín og fylgir því mikið álag. Það er erfitt að neita fólki í neyð en ekki geta þau hjálpað öllum. Vilt þú hjálpa? Hér er úr bréfi frá Skúla:

„Þegar smá stund gefst frá kennslunni þá eru stöðugar heimsóknir og beiðnir aðstoð. Mest eru það foreldrar sem koma og biðja um hjálp vegna skólagjalda barnanna. Þetta er mjög mikið vandamál hér og liggur þungt á foreldrunum sem vilja að börnin þeirra fá góða menntun. Það er helst ríka fólkið sem hefur efni á greiða skólagjöldin fyrir sín börn. Margir góðir nemendur sitja heima vegna þess að þeir hafa ekki efni á að greiða skólagjöldin. Skólagjöldin í framhaldsskóla eru frá ca 70-100 þúsund krónur á ári. Mánaðarlaun verkamanna eru um 6000 á mánuði.  Með hjálp sem við fengum frá Íslandi og Noregi nú í janúar gátum við hjálpað 25 nemendum með 14. þús. kr. styrk. Allir sem fengu styrk eru mjög þakklátir þó þetta nægi ekki nema aðeins til að fá að byrja í náminu. Ég er með á biðlista nöfn á 41 nemanda sem við getum ekki hjálpað og í þessarri viku bætast sjálfsagt álíka margir á biðlistann því þá byrja nemendur í fyrsta bekk í framhaldsskóla námið sitt og verða þá að mæta með skólagjöldin til þess að fá að hefja nám. Margir þessarra nemenda eru börn starfsmanna kirkjunni sem eru oft í fullu starfi án þess að kirkjan geti greitt þeim laun nema einn og einn mánuð.“

Kristniboðssambandið vill gefa fólki tækifæri á að styrkja nemendur til náms í Pókot. Þeir sem hafa áhuga geta lagt inn á reikning 0117-26-2818, kt. 550269-4149 með skýringu á að um skólagjöld í Pókot sé að ræða.