Categories
Fréttir

Sjónvarpskristniboð

Útvarp og sjónvarpSat-7 er kristileg gervihnattarsjónvarpsstöð sem sjónvarpar til Mið-Austurlanda og Norður-Afríku. Áhorfendur stöðvarinnar segja andlegan þorsta aukast í þessum löndum.

„Átök hafa einkennt þetta svæði í tvo áratugi, þó mest í Írak og Sýrlandi. En átök og öfgar í nafni trúarbragða hafa aukið áhuga á sjónvarpsdagskrá Sat-7“, segir Terence Ascott framkvæmdastjóri stöðvarinnar.

Viðbrögð áhorfenda hafa þrefaldast á fimm árum, frá 270 að meðaltali á dag árið 2010 í rúmlega 800 á dag árið 2015. Sameiginleg viðbrögð fólks er þrá eftir viðurkenningu, tilgangi og friði.

„Sat-7 styður kirkjur til að vera salt og ljós í samfélagi sínu, að vera boðberar fagnaðarerindisins og sýna að til sé önnur leið. Þetta er mikilvægur tími fyrir okkur á sama tíma og pólitísk múhameðstrú er dregin í efa og fólk leitar svara við grimmdarverkum gegn öðru fólki“, segir Ascott.

Í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku búa 500 milljónir manna. Færri en 10% þeirra hafa hitt kristinn einstakling en meira en 90% þeirra hafa aðgang að gervihnattarsjónvarpi.

Sat-7 nær til 15 milljóna manna á fimm rásum, frá fjórum myndverum á þremur tungumálum, arabísku, farsi og tyrknesku. Stöðin þjónar bæði einangruðum, ofsóttum  kristnum mönnum og flytur fagnaðarboðskapinn þeim sem aldrei hafa heyrt hann.

„Það er stórkostlegt að geta komið fagnaðarboðskapnum um kærleika, frið, von og sáttargjörð inn á milljónir heimila sem eiga ekki kost á að heyra hann á annan hátt“, segir Ascott.

Kristniboðssambandið styður Sat-7 með árlegu fjárframlagi. Hægt er að kaupa gjafakort sem styður verkefnið. Gjafakort Kristniboðssambandsins fást í Basarnum, Austurveri og á skrifstofu SÍK á Háaleitisbraut 58-60.