SAT-7 dregur úr einangrun kristinna í Mið-Austurlöndum

Nýleg könnun sýnir að dagskrá SAT-7 sjónvarpsstöðvarinnar styður og uppörvar kristið fólk í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, sem oft býr við mikla andlega einangrun. Kristniboðssambandið styður stöðina með árlegu fjárframlagi.

Yfir 5000 svör bárust í könnun sem auglýst var á öllum stöðvum SAT-7 auk vefsíðu. Svörin leiddu í ljós almenna ánægju með efnið og útsendingarnar en mest um vert var sá andlegi vöxtur sem efni stöðvarinnar veitti áhorfendum. Staðfesting á því að kærleikur Guðs skín í gegnum dagskrá SAT-7.

Aðeins um 3% íbúa í þessum heimshluta eru kristnir og oft er langt á milli þeirra. Þetta leiðir oft til félags- og andlegrar einangrunar. Þriðjungur þeirra sem tóku þátt í könnuninni sögðu að útsendingar SAT-7 drægju úr þessari einangrun.

Dr. Terence Ascott, stofnandi og framkvæmdastjóri SAT-7 lýsti yfir sérstakri ánægju með niðurstöðurnar.  „Við viljum brúa bilið á milli trúsystkina með framleiðslu vandaðs efnis á móðurmáli þeirra og öflugum samskiptavettvangi stöðvarinnar við áhorfendur.

Uppörvandi dagskrá
Áhorfandi í Tyrklandi þar sem aðeins 0,2% þjóðarinnar eru kristin sagði: „Þakka ykkur fyrir, mér finnst ég ekki vera einn. Ég á erfitt með að sækja kirkju en útsendingar ykkar eru afar mikilvægar fyrir trú mína, þær hjálpa mér að fylgja Jesú og halda mér á réttri braut.“

Þriðjungur áhorfenda sagði að dagskráin væri uppörvandi á tímum erfiðleika og mótlætis. Helmingur áhorfenda í Egyptalandi sagði stöðina mjög mikilvæga í ljósi þeirra ofsókna sem kristnir hafa sætt þar í landi á síðast liðnum árum.

Þrátt fyrir einangrunina er það von okkar að dagskrá SAT-7 veiti hinum trúuðu stuðning og leiðbeiningar um hvernig best sé að takast á við erfiðleika og áskoranir.

Múrar falla
Dagskrá SAT-7 miðar líka að því að draga úr ranghugmyndum sem ríkja varðandi kristna trú. Hvort sem áhorfendur eru kristnir eða ekki töldu um helmingur þeirra sem tóku þátt að efni stöðvarinnar hefði haft jákvæð áhrif á afstöðu þeirra til kristinnar trúar og málefna kirkjunnar.

Komast til trúar
Tæplega fjórðungur áhorfenda í Íran og Afganistan segir að áhorf á stöðina hafi gert þá að fylgjendum Jesú. Í þessum löndum gefst fólki afar sjaldan kostur á að sjá kristilegt efni.

Jákvæð þróun
Efni stöðvarinnar miðar ekki eingöngu að því að auka skilning þeirra sem ekki eru kristnir á kristindómnum heldur líka að draga úr fordómum og ósætti kristinna áhorfenda við þá sem ekki játa kristna trú. Þetta er ekki síður mikilvægt og er jákvæðra áhrifa þessa farið að gæta.

Arabískur áhorfandi skrifaði: „SAT-7 hefur haft mikil áhrif á mig og verið grundvöllur andlegs vaxtar míns undanfarin sex ár. Ég hef lært að elska og virða aðra menn, sama hver bakgrunnur þeirra og trú er.“

(Heimild: sat7.org)