Rausnarleg gjöf til kirkjubyggingar í Pókot

 

Kirkjan sem er verið að byggja í Chepkobe.

Kristniboðssambandinu berast árlega fjölmargar gjafir til starfsins. Hjónin Katrín Ásgrímsdóttir og Gísli Guðmundsson hafa gefið nokkrar milljónir til kirkjubyggingar í Chepkobe. Okkur langar að forvitnast aðeins um þessa gjöf og fengum Katrínu til að svara nokkrum spurningum.

Katrín, hvernig kynntust þið starfi Kristniboðssambandsins?

Haustið 1999 fórum við til Keníu, í ferð sem farin var á vegum SÍK.  Ferðin var mikil upplifun og breytti hún afstöðu okkar til lífisns og til máttar trúarinnar. Ég (Katrín) komst upp úr því til trúar og við stofnuðum hóp austur á Héraði, kristniboðshóp. Það var frábært samfélag, mjög gefandi.

Hvað var það sem hreif ykkur mest þegar þið voruð í Pókot í Keníu?

Starf íslenska kristniboðsins hreif okkur. Hvað mikið er hægt að gera fyrir lítið fé og hvað bæði íslenskir og innlendir starfsmenn voru tilbúnir að leggja mikið á sig. Það er unnið mjög óeigingjarnt starf þarna úti sem hefur skilað sér í miklum framförum í samfélaginu. Það sem er þó enn mikilvægara er hvað trúin er fólkinu mikilvæg. Það að eignast von, von sem er ekki byggð á sandi. Þessi von gefur styrk sem veitir fóki aukinn þrótt í lífsbaráttunni og ég held að þetta geti verið fólki mikilvægara oft á tíðun en almenn þróunaraðstoð þó það þurfi allt að haldast í hendur. Það eru kristniboðarnir sem færðu þessa von til fólksins þó innlendir aðilar hafi að mörgu leyti tekið við keflinu.

Ég vil líka nefna að það hreif okkur mjög hvað trúin og trúarsamfélagið hefur breytt aðstöðu til kvenna og sjálfsvitund kvenna. Þær sem voru lægstar og lítt metnar í samfélaginu en eru í trúnni jafningar karlmannanna því allir eru jafnir fyrir Guði.

Hvers vegna gefið þið svona rausnarlega gjöf til kirkjubyggingar?

Að gefa fé til kirkjubyggingar gefur manni tækifæri til að vera þátttakandi í verki Guðs á mjög öflugan hátt. Við upplifðum í ferð okkar hversu dýrmætt samfélagið í kirkjunni er fólkinu. Ekki síst kvenna sem lögðu jafnvel á sig margra klukkustunda göngu til að vera með í guðþjónustu á sunnudegi. Við sáum kraftinn og gleðina í Jesú í starfinu í kirkjunum. Starfið vex og söfnuðirnir og starfsfólkið þarf aðstöðu.  Að geta tekið þátt í að veita það gefum manni einstaka gleði. Það er hægt að gera mjög mikið úr peningunum með því að taka þátt í uppbyggingu á þessum slóðum. Allt er mikið ódýrara en hér og vart hægt að hugsa sér betri fjárfestingu þó gróðinn sé ekki í peningum.

Foreldrar Gísla.

Við ákváðum að gera þetta til minningar um foreldra Gísla; Guðmund Gíslason (f. 17.09.1910- d. 6.3.1973) og Fanneyju Jónsdóttur (f. 1.10.1916 – d. 24.11.2009). Líf þeirra minnir okkur um margt á lífsbaráttuna í Pókot þótt aðstæður séu mjög ólíkar. Þau börðust lengst af í fátækt eins og var víða á Íslandi á fyrrihluta síðustu aldar og fram yfir miðja öld og  líkt og mætir fólki í Pókot í dag. Í þessum aðstæðum upplifum við samt lífsgleði og gestrisni.  Það snerti okkur mjög í heimsókn okkar í Pókot og á sama hátt á Gísli minningar úr sinni æsku þar sem gjafmildi og gestrisni réði ríkjum þrátt fyrir allt.

Þráin að börnin fái meiri tækifæri en foreldranrir er líka það sem maður upplifir í báðum þessum menningarheimum. Það er alveg sama hvort það er Ísland eða Kenía. Manneskjan býr allstaðar við sömu þrár og baráttuþrek. Það má líka nefna í þessu samhengi að Fanney, mamma Gísla, var alin upp í torfbæ í hópi 16 systkina. Það er ekki langt síðan að okkar samfélag var á talsvert öðrum stað en það er í dag og við vonum að samfélagið í Pókot stefni fram á við til betri lífskjara og meiri tækifæra fyrir íbúana þar

Mikil gleði ríkir í kirkjunni þó að hún sé ekki fullbyggð.

Veistu hvernig gengur með byggingu kirkjunnar og hvenær vonist þið til að henni verði lokið?

Við höfum haft mjög gaman að því að fylgjast með byggingunni. Skúli Svavarsson og Ragnar Gunnarsson hafa sent okkur myndir. Byggingin er orðin fokheld og söfnuðurinn er farinn að halda þar samkomur og það var einstaklega gefandi að sjá myndbandsupptökur frá Ragnari  frá samkomu í kirkjunni. Við vonumst til að byggingin verði langt komin í lok ársins og við höfum hug á því að fara út í byrjun árs 2018 og vera þar við vígslu kirkjunnar.

Kristniboðssambandið þakkar þeim hjónum fyrir stuðninginn og biður þeim blessunar Guðs.