Prestar vígðir og byggt við skóla

posted in: Fréttir, Kenía | 0

Margt gott og jákvætt gerist í starfinu í Keníu í norðvesturhluta landsins um þessar mundir. Sunnudaginn 18. september var hópur presta sem koma frá útbreiðslusvæðum kirkjunnar í Pókotsýslu vígður til prests í Kunyau, litlum bæ norður af Kongelai, stutt frá landamærum Úganda. Mikil hátið var þennan dag og fjöldi fólks viðstaddur. Þessi hópur lauk námi í vor og greiddi Kristniboðssambandið námskostnað þeirra. Með fjölgun presta er stigið skref til frekari sjálfbænri og sjálfstæði kirkjunnar.

Um svipað leyti barst áfangaskýrlsa um skólaverkefni sem felur í sér byggingu tveggja skólastofa við grunnskóla í Chemananga, norðarlega í Pókot, nærri sýslumörkum Túrkana. Svæðið er afskekkt og leggja þurfti veg síðasta spölinn. Annar þáttur verkefnisins er bygging heimavistar fyrir stúlkur við framhaldsskólann í Kamito. Skólinn er einn af mörgum sem hafa farið af stað á liðnum árum vegna vaxandi eftirspurnar eftir framhaldsskólanámi. Heimavistin veiir öryggi og skjóla og er jafnframt hvatning til að stunda námið af einurð. Vonir standa til að stúlkum fjölgi í hópi þeirra sem ljúka framhaldsskóla og fara í háskóla eða tækninám. Utanríkisráðuneytið styrkir verkefnið sem mun væntanlega ljúka að mestu um áramótin.